Fréttir

Anna Júlía og Ragnar Már klúbbmeistarar GKG 2019
Verðlaunahafar í Meistaramóti GKG árið 2019. Mynd: gkg.is
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 15. júlí 2019 kl. 21:30

Anna Júlía og Ragnar Már klúbbmeistarar GKG 2019

Anna Júlía Ólafsdóttir og Ragnar Már Garðarsson eru klúbbmeistarar Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar árið 2019 en meistaramóti klúbbsins lauk um síðustu helgi.

Mikil spenna var í meistaraflokki kvenna en þær Ingunn Einarsdóttir og Anna Júlía voru jafnar eftir fjóra hringi á 36 höggum yfir pari og því þurfti að grípa til bráðabana. Á annarri holu bráðabanans hafði Anna Júlía betur og stóð því uppi sem sigurvegari. Jafnframt þurfti bráðabana til að skera úr um hver endaði í þriðja sætinu eftir að þær María Björk Pálsdóttir, Ingunn Gunnarsdóttir og Ástrós Arnarsdóttir höfðu endað jafnar á 42 höggum yfir pari. María Björk vann bráðabanann og endaði því í þriðja sæti.

Í karlaflokki lék Ragnar Már glæsilegt golf alla fjóra hringina og endaði á 8 höggum undir pari. Ragnar var kominn á 8 högg undir par eftir tvo hringi og lék seinni tvo hringina „einungis“ á pari. Ragnar varð heilum 14 höggum á undan næsta kylfingi sem var Hlynur Bergsson. Breki Gunnarsson Arndal endaði í þriðja sæti á 9 höggum yfir pari eftir frábæran lokahring sem hann lék á höggi undir pari.

Meistarflokkur kvenna

  1. Anna Júlía Ólafsdóttir 320 högg eftir bráðabana um 1. sæti
  2. Ingunn Einarsdóttir 320 högg eftir bráðabana um 1. sæti
  3. María Björk Pálsdóttir 326 vann eftir bráðabana um 3. sæti

Meistaraflokkur karla

  1. Ragnar Már Garðarsson 276 högg
  2. Hlynur Bergsson 290 högg
  3. Breki Gunnarsson Arndal 293 högg