Örninn22_bland
Örninn22_bland

Fréttir

Aron Snær leiðir ásamt Rönneblad eftir fyrsta hring í Svíþjóð
Aron Snær Júlíusson. Ljósmynd: golfsupport.nl
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 10. maí 2022 kl. 18:25

Aron Snær leiðir ásamt Rönneblad eftir fyrsta hring í Svíþjóð

Axel einu höggi á eftir – Bjarki og Böðvar Bragi léku vel

Íslendingarnir á Ecco-mótaröðinni voru í góðum gír í dag. Aron Snær Júlíusson, GKG, átti mjög góðan hring á fyrsta keppnisdegi Rewell Elisefarm Challenge á Ecco-mótaröðinni (Nordic Golf League). Aron Snær kom í hús á 67 höggum eða á 5 höggum undir pari Elisefarm vallarins í Svíþjóð og leiðir eftir fyrsta hring ásamt heimamanninum, Hannes Rönneblad. Þá átti Axel Bóasson einnig góðan dag og situr sem stendur í 3.-6. sæti einu höggi á eftir forystusauðunum. Fyrr í dag skiluðu bæði Bjarki Pétursson og Böðvar Bragi Pálsson inn flottum hringjum.

Staðan á mótinu

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

Aron Snær var ræstur út af 1. teig í dag. Hann lék fyrri níu holurnar á 33 höggum eða á 3 höggum undir pari og seinni níu holurnar á 34 höggum eða 2 höggum undir pari. Hann fékk sjö fugla og tvo skolla á hringnum og var eins og áður sagði á samtals 5 höggum undir pari.

Skorkort Arons Snæs

Axel var sömuleiðis ræstur út af 1. teig. Hann lék fyrri níu holurnar á 33 höggum eða á 3 höggum undir pari, rétt eins og Aron Snær en seinni níu holurnar á 35 höggum eða 1 höggi undir pari. Axel fékk sex fugla og tvo skolla á hringnum og kom í hús á 68 höggum eða á 4 höggum undir pari.

Skorkort Axels

Sex íslenskir kylfingar leika á Rewell Elisefarm Challenge á Ecco-mótaröðinni (Nordic Golf League) í vikunni en leikið er í Svíþjóð. Bjarki Pétursson, GKG og Böðvar Bragi Pálsson, GR léku vel á fyrsta hring fyrr í dag. Bjarki kom í hús á 3 höggum undir pari og Böðvar Bragi á 2 höggum undir pari Elisefarm vallarins. Þá luku Andri Þór Björnsson, GR og Aron Bergsson, sem leikur fyrir Hills Golfklúbbinn í Svíþjóð einnig leik fyrr í dag. Andri Þór kom í hús á 2 höggum yfir pari og Aron Bergsson á 5 höggum yfir pari.

Þeir Aron Snær og Axel verða ræstir út á annan hring um sjöleytið í fyrramálið á íslenskum tíma. Andri verður ræstur út um ellefuleytið, Aron Bergsson upp úr hádegi og þeir Bjarki og Böðvar Bragi um eittleytið á íslenskum tíma.

Kylfingur fylgist vel með okkar mönnum á mótinu.