Örninn #galvin 2
Örninn #galvin 2

Fréttir

Beðið eftir svari frá sóttvarnalækni
Íslandsmótið í höggleik fer fram á Hlíðavelli í Mosfellsbæ.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 31. júlí 2020 kl. 16:44

Beðið eftir svari frá sóttvarnalækni

Íslandsmótið í höggleik 2020 á að fara fram dagana 6.-9. ágúst hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Enn er gert ráð fyrir að mótið fari fram á réttum tíma en Golfsamband Íslands bíður nú eftir staðfestingu frá sóttvarnalækni.

Blaðamaður Kylfings hafði samband við Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóra Golfsambandsins sem tjáði undirrituðum að miðað við þær upplýsingar sem sambandið hefði þessa stundina væri enn stefnt á að halda mótið á upphaflegri dagsetningu.

Sambandið væri engu að síður að bíða eftir frekari staðfestingu frá sóttvarnalækni hvort hægt verði að halda Íslandsmótið og þá útfærslu á mótinu, til að mynda hvort áhorfendur mættu fylgjast með á vellinum.

Á heimasíðu Golfsambandsins kemur eftirfarandi fram:

„Varðandi mótahald, þá bíðum við enn eftir frekari tilmælum stjórnvalda en í ljósi þess að hægt er að leika golf með framangreindum hætti þá ætti að vera óhætt að hefðbundið mótahald golfklúbba fari fram um helgina.“

Brynjar taldi ljóst að lokahóf mótsins myndi ekki fara fram með hefðbundnum hætti vegna þeirra takmarkana sem eru í gildi en skráðir keppendur mótsins eru nú þegar 87 talsins og útlit fyrir að þeir verði fleiri en 100.

Fari svo að mótið fari fram í næstu viku er Golfsambandið tilbúið með nokkrar svipmyndir til að fylgja Covid-19 reglum, til að mynda hvort einn sjálfboðaliði verði á hverri flöt til að taka flaggið úr holunni.

Að lokum hefur Golfsambandið ekki enn tekið ákvörðun um hvað verði gert fari svo að Íslandsmótið í höggleik megi ekki fara fram dagana 6.-9. ágúst. Taka yrði stöðuna þegar að því kemur ef það yrði niðurstaðan hjá stjórnvöldum.