Fréttir

Besti árangur Guðmundar á Áskorendamótaröðinni
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 8. september 2019 kl. 13:36

Besti árangur Guðmundar á Áskorendamótaröðinni

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Birgir Leifur Hafþórsson léku í dag lokahringinn á Opna Bretagne mótinu sem er hluti af Áskorendamótaröðinni og fór fram í Frakklandi. Guðmundur náði sínum besta árangri á mótaröðinni á meðan Birgi fataðist aðeins flugið.

Strákarnir voru jafnir eftir fyrsta, annan og þriðja hring mótsins og fengu því að leika saman í holli í dag þegar lokahringurinn fór fram. Heimildir Kylfings herma að þetta sé í fyrsta skiptið í sögunni sem íslenskir kylfingar leika saman í holli á Áskorendamótaröðinni.

Svo fór að Guðmundur lék betur á lokahringnum, fékk fimm fugla og þrjá skolla á hringnum og kom inn á 2 höggum undir pari.

Guðmundur lék hringi mótsins samtals á 4 höggum undir pari og er þessa stundina jafn í 15. sæti. Besti árangur Guðmundar fyrir mótið var 51. sæti á Slovakia Challenge mótinu í júlí.

Birgir Leifur spilaði lokahringinn á tveimur höggum yfir pari og endaði mótið á parinu í heildina. Birgir, sem sigraði á þessu móti árið 2017, er þessa stundina jafn í 30. sæti og fær fyrir það sín fyrstu stig á stigalistanum þetta árið.

Sebastian Heisele er með tveggja högga forystu í mótinu þegar fimm holur eru eftir. Hann er í leit að sínum fyrsta titli á mótaröðinni.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.