Gríðarleg vonbrigði hjá Ragnhildi - „Gerðist allt sem mátti ekki gerast“
Ragnhildur Kristinsdóttir var tveimur stigum af tæplega fimmtánhundruð frá því að tryggja sér þátttökurétt á LET Evrópumótaröðinni eftir að hafa lent í 8. sæti stigalistans eftir lokamótið á Gambito Golf Calatayud vellinum á Spáni um helgina. Gríðarleg vonbrigði fyrir Ragnhildi sem stóð sig mjög vel í sumar og það þurfti hreinlega flest að falla frá henni til að henni tækist ekki að enda í efstu sjö sætunum en það gerðist.
Fyrir lokamótið var Ragga í 6. sæti stigalistans og hún í góðum gír eftir fyrsta hringinn í mótinu. Eftir tíu holur í honum var hún m.a. í forystu en fjórir skollar á síðustu átta brautunum reyndust dýrir. Hún endaði hringinn samt á -1 og með svipaðri spilamennsku áfram hefði hún náð markmiði sínu. Í öðrum hring byrjar hún fyrstu holu á pari en á annari braut gerðist stóra slysið. Hún lék hana á 8 höggum, fjórum yfir pari og þrátt fyrir tvo fugla bættust líka við skollar og hún endaði hringinn á fimm yfir pari, 77 höggum og það var tveimur höggum frá niðurskurði sem hún þurfti að komast í gegnum.
Síðan gerðust aðrir hlutir sem gerðu það að verkum að Ragnhildur endaði með 1485,45 stig en hin danska Amalie Leth-Nissen endaði með 1487,50 stig, tveimur meira en Ragga. Lissen komst hins vegar ekki í gegnum niðurskurðinn á mótinu. Charlotte Heath frá Englandi var fyrir neðan Ragnhildi fyrir lokamótið og fór upp fyrir hana og sömuleiðis sigurvegari lokamótsins, Andrea Lignell frá Svíþjóð. Hún tryggði sér í topp 7 með sigri.
„Það gerðist allt sem mátti ekki gerast og ég missti af 7. sætinu með tveimur stigum,“ sagði Ragnhildur í skilaboðum til kylfing.is og aðspurð sagðist hún vera á leið í úrtökumót fyrir LET en vildi að öðru leyti ekki tjá sig meira. „Ég þarf tíma til að meðtaka þetta allt saman,“ sagði Ragnhildur.
Andrea Bergsdóttir endaði í 12. sæti stigalistans og varð í 3. sæti í keppninni um nýliða ársins á mótaröðinni, mjög góð frammistaða hjá henni á sínu fyrsta ári. Hún varð í 42. sæti lokamótsins og fékk fyrir það 13.50 stig. Neðsta sætið í mótinu af þeim sem komust í gegnum niðurskurðinn hefði dugað Ragnhildi en það gaf 6,75 stig.