Draumahögg hjá Heiðrúnu Líndal og Jóni Halldóri á Islantilla
Það hefur verið skemmtileg stemning á Islantilla-golfvellinum á Spáni að undanförnu en völlurinn er rétt við landamæri Spánar og Portúgals. Þar hafa íslenskir kylfingar notið lífsins í sólinni undir handleiðslu Icelandair Vita og Peter Salmon Golf. Veðrið hefur verið eins og pantað frá fyrsta degi – stilla, sól og um 26 stiga hiti á daginn.
Heiðrún og Jón skrifuðu sig í sögubækurnar
En það var ekki bara sólin sem skein yfir vellinum. Tvö íslensk högg sem fáir gleyma settu skemmtilegan svip á ferðirnar þegar bæði Heiðrún Líndal Karlsdóttir og Jón Halldór Jónsson fóru holu í höggi með stuttu millibili.
Heiðrún Líndal átti algjört draumahögg í Vita Open-mótinu, sem fararstjórarnir halda fyrir hvern hóp sem kemur til Islantilla. Hún fór holu í höggi 15. október á 15. brautinni, sem er tæpir 80 metrar, eftir glæsilega sveiflu þar sem boltinn lenti mjúklega á flötinni. Þar sem djúp glompa er fyrir framan flötina og hár bakki fyrir aftan, sá hún þó ekki hvert boltinn fór. Það var ekki fyrr en komið var að flötinni sem í ljós kom að boltinn hafði endað í holunni – sannkallaður hápunktur ferðarinnar fyrir Heiðrúnu, sem var í fyrri 120 manna hópnum sem lagði af stað til Spánar í byrjun október.
Ekki liðu margir dagar þar til seinni hópurinn lét að sér kveða – þar var það Jón Halldór sem smellti boltanum beint í holuna á 11. brautinni þann 20. október. Jón sló af rauðum teigum, þar sem holan er tæplega 150 metrar, og boltinn flaug fallega alla leið og hafnaði beint í holunni. Fagnaðarlæti
Líf og fjör í sólinni
Ferðirnar hafa annars einkennst af frábærri samveru, góðu golfi og endalausum hlátrasköllum. Fararstjórarnir þrír – Gylfi Kristinsson, Ragnar Ólafsson og Atli Már Gylfason – hafa leikið á alls oddi bæði innan vallar sem utan en þeir Gylfi og Ragnar eru báðir fyrrverandi Íslandsmeistarar í golfi, Gylfi 1983 og Ragnar 1981.
Atli Már er þekktari sem „DJ“ en hann hefur meðal annars breytt verönd Double Tree Hilton-hótelsins í líflegt diskótek eftir sólríka golfdaga, þar sem íslenskir kylfingar dansa undir stjörnubjörtum himni og fagna vel heppnuðum höggum dagsins.
Á kvöldin hefur verið borðað vel, skálað í spænsku víni og bestu höggin rifjuð upp – og jafnvel þau sem hafa endað úti í skógi, í skurðum eða á brautum sem enginn ætlaði sér að leika. En eitt er víst eftir þessa ferð: íslenskir kylfingar kunna bæði að leika og njóta – og ljóst er að þetta eru golfferðir sem enginn gleymir.
Fararstjórarnir Gylfi Kristinsson, Ragnar Ólafsson og Atli Már Gylfason „á skrifstofunni“ við klúbbhúsið á Islantilla, þar sem undirbúningur fyrir Vita Open stendur yfir.

