Fréttir

Betur undirbúinn en fyrir Opna bandaríska
Tiger Woods sigraði á ZOZO meistaramótinu í fyrra.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 21. október 2020 kl. 11:18

Betur undirbúinn en fyrir Opna bandaríska

Tiger Woods er mættur aftur á PGA mótaröðina en hann er á meðal keppenda á ZOZO meistaramótinu þar sem hann hefur titil að verja.

Woods sigraði á mótinu í fyrra og jafnaði þar með metið hans Sam Snead en þeir eiga það sameiginlegt að hafa unnið 82 mót á PGA mótaröðinni.

Það sem af er tímabili hefur Woods ekki enn fundið sitt besta form og til marks um það er hans besti árangur eftir Covid-19 pásuna 37. sæti og hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Opna bandaríska. Woods er þó jákvæður fyrir framhaldinu og er spenntur fyrir því að leika á Sherwood golfvellinum þar sem hann hefur átt góðu gengi að fagna á sínum ferli.

„Golfið mitt er klárlega betra en það var á Opna bandaríska. Mér líður eins og ég sé betur undirbúinn og vonandi skilar það sér í spilamennskunni á golfvellinum,“ sagði Woods.

„Þessi völlur er týpískur Jack [Nicklaus] völlur. Járnaspilið mitt hefur verið eitt af því stöðugasta í mínum leik í gegnum tíðina og vanalega verðlauna vellirnir hans gott járnaspil. Þess vegna hef ég unnið nokkrum sinnum á völlunum hans Nicklaus.

Lögun golfvallarins hefur eki breyst en flatirnar hafa breyst frá því að ég spilaði hér síðast. Endurgerðin hefur gert völlinn þægilegri fyrir klúbbmeðlimi og ég held að skorin verði afskaplega lág þessa vikuna.“

ZOZO meistaramótið er gríðarlega sterkt að þessu sinni en 78 kylfingar taka þátt og þar af eru 25 af 30 efstu kylfingum heimslistans á meðal þátttakenda. Mótið hefst á fimmtudaginn og klárast á sunnudaginn. Hér er hægt að sjá nánar um mótið.