Bjargaði Tiger á klósettinu
Ryder Cup er sérstakt mót fyrir alla sem koma að því og Billy Foster, einn þekktasti kylfusveinn heims, sem hefur tekið þátt 16 sinnum í Ryder keppnninni segir að það sé engin undantekning fyrir kylfusveina leikmanna. Billy sagði skemmtilega sögu af samskiptum sínum við hinn eina sanna Tiger Woods sem hann vann fyrir um tíma í viðtali við Irish golfer tímaritið.
Svo mikið er Ryder-inn sérstakur að Billy segist hreinskilnislega aldrei geta unnið sem kylfusveinn fyrir bandarískan leikmann í Ryder Cup.
„Það kæmi einfaldlega aldrei til greina,“ segir hann ákveðinn.
„Aldrei. Það eru nokkrir bandarískir kylfusveinar sem vinna fyrir evrópska leikmenn, og þeirra viðhorf er: ‘þetta er vinnuveitandinn minn, ég fer þangað sem hann fer’ – og ég met það algerlega. En persónulega? Aldrei.
Það gengu sögur fyrir mörgum árum að Tiger Woods ætlaði að biðja mig að vinna fyrir sig. Þá fór maður að hugsa: hvað myndirðu gera?
Ég var kylfusveinn hjá Collin Morikawa á Scottish Open og The Open í ár. Ef hann hefði beðið mig um að vinna fyrir sig út árið hefði ég sagt: ‘já, en ég get ekki tekið þátt í Ryder Cup’.
Ryder Cup er í blóðinu mínu. Ef ég myndi skipta um lið og vinna fyrir þá, þá væri ég líklega að gefa vitlausa fjarlægð með viljandi hætti! Í alvöru talað, ég gæti það ekki.“
Kallið um að vinna með Tiger Woods í fullu starfi kom aldrei, en Foster fékk að stíga inn sem staðgengill í Presidents Cup 2005, þegar Steve Williams, fasti kylfusveinn Tigers þá, var heima hjá eiginkonu sinni sem var að eignast sitt fyrsta barn.
Og í sannkallaðri Billy Foster-stíl er sagan um hvernig það gerðist hreint út sagt frábær.
„Ég var á æfingasvæðinu með Darren Clarke í Akron, Ohio, fyrir Bridgestone-mótið.
Tiger kemur og byrjar að spjalla við Darren. Eftir tvær mínútur snýr Darren sér að mér og segir að eiginkona Steve Williams sé að fara að eiga barn og Tiger vilji að ég vinni fyrir hann í vikunni – og hann hafi bara spurt Darren hvort það væri í lagi.
Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera, en Westy [Lee Westwood], sem var við hliðina á okkur að slá, snýr sér að mér og segir: ‘Billy, ef þú vinnur ekki fyrir hann, þá geri ég það!’“
Foster segir að allt sem snúi að Tiger Woods sé eins og „sirkus“ – ekkert sem hann hafi séð áður jafnist á við það, jafnvel þó hann hafi unnið með stórstjörnum eins og Seve Ballesteros.
Þeir tveir (Foster og Tiger) kynntust þó með ansi óvenjulegum hætti – á Ryder Cup 2002 á The Belfry.
Þar voru Darren Clarke og Thomas Bjørn að undirbúa fyrsta leik sinn gegn Tiger Woods og Paul Azinger, þegar náttúran kallaði á Foster.
„Ég fer inn á klósettið, sest niður, lít yfir – og sé að það er enginn klósettpappír.
Þannig að ég stend upp og fer í næsta bás þar sem nóg var af pappír.
Þá heyri ég hljóð í golfskóm með málmtökkum á flísunum, og Cubby, kylfusveinn Davis Love III, segir: ‘Góðan daginn, Tiger,’ þegar hann gengur út.
Hurðin lokast á básnum sem ég var nýbúinn að yfirgefa.
Ég hlusta – heyri smá hljóð – og fatta að Tiger er þarna inni, án klósettpappírs. Það eru sex mínútur í upphafshögg. Ég er eini maðurinn í heiminum sem veit þetta!
Ég sé hann fyrir mér ganga upp fyrstu brautina eins og John Wayne, og hugsa: ‘Ég get þetta ekki – ég get ekki látið hann sitja fastur þarna.’
Þannig að ég rúlla upp um 20 blöðum af pappír, fer niður á fjóra fætur og rétti þau undir hurðina.
Allir vita um Maradona og hönd Guðs – ég var hönd Guðs þennan dag fyrir Tiger Woods.
Ég sagði: ‘Þú gætir þurft á þessu að halda,’ og gekk svo út og hrópaði: ‘Evrópa 1 upp!’“
„Og viti menn, við unnum þá 1 upp.
Tiger kom út af klósettinu með stærsta bros í heimi, og ég sagði:
‘Þú skuldar mér stórt, Tiger.’
Hann leit á mig og sagði:
‘Ég skulda þér stórt, Billy.’
Og ég held að það hafi verið ástæðan fyrir því að ég fékk starfið síðar!“

Billy með Lee Westwood (efri mynd) og á þeirri neðri í Ryder bikarnum í Írlandi 2006 en þá var hann kylfusveinn hjá Darren Clarke.



