Fréttir

Bjarki lék Hlíðavöll á 66 höggum og leiðir eftir tvo hringi
Bjarki Pétursson. Mynd: [email protected]
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 7. ágúst 2020 kl. 20:10

Bjarki lék Hlíðavöll á 66 höggum og leiðir eftir tvo hringi

Bjarki Pétursson er í forystu eftir tvo hringi í karlaflokki á Íslandsmótinu í höggleik. Bjarki lék annan hring mótsins á 66 höggum eða 6 höggum undir pari en leikið er á Hlíðavelli í Mosfellsbæ.

Alls fékk Bjarki sjö fugla og einn skolla á hring dagsins en skollinn kom á hinni erfiðu 11. holu þar sem hann missti stutt pútt fyrir pari. Um var að ræða besta hring dagsins  en þeir Eyþór Hrafnar Ketilsson og Axel Bóasson léku á 4 höggum undir pari sem var næst besta skorið.


Skorkort Bjarka í mótinu til þessa. Hann hefur spilað síðustu 25 holur á 8 höggum undir pari.

Axel er einmitt í öðru sæti mótsins á 5 höggum undir pari í heildina. Hann er í leit að sínum fjórða Íslandsmeistaratitli í höggleik en með sigri um helgina myndi hann jafna þjálfara sinn Björgvin Sigurbergsson sem vann fjórum sinnum á sínum ferli.

Eftir fyrsta keppnisdaginn voru þeir Tómas Eiríksson Hjaltested og Aron Snær Júlíusson í forystu á 3 höggum undir pari. Tómas lék annan hringinn á höggi undir pari og er í 3. sæti á meðan Aron lék á höggi yfir pari og deilir 5. sætinu.

Þriðji og næst síðasti keppnisdagur mótsins fer fram á morgun, laugardag. Hér er hægt að sjá stöðuna.

Staða efstu kylfinga í karlaflokki eftir tvo keppnisdaga á Íslandsmótinu í höggleik:

1. Bjarki Pétursson, -6
2. Axel Bóasson, -5
3. Tómas Eiríksson Hjaltested, -4
4. Rúnar Arnórsson, -3
5. Eyþór Hrafnar Ketilsson, -2
5. Aron Snær Júlíusson, -2
5. Egill Ragnar Gunnarsson, -2 eftir 16 holur
8. Bragi Arnarson, Par
8. Sigurður Bjarki Blumenstein, Par
8. Ólafur Björn Loftsson, Par
8. Jóhannes Guðmundsson, Par


Axel Bóasson.


Tómas Eiríksson Hjaltested.


Rúnar Arnórsson.