Fréttir

Bjarki og Guðmundur frábærir á öðrum hring lokaúrtökumótsins
Bjarki Pétursson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 16. nóvember 2019 kl. 14:08

Bjarki og Guðmundur frábærir á öðrum hring lokaúrtökumótsins

Íslensku kylfingarnir sem leika á lokastigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina voru rétt í þessu að ljúka leik. Þeir Bjarki Pétursson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson léku frábært golf á öðrum hringnum og eru báðir komnir í efri hluta skortöflunnar. Andri Þór Björnsson náði sér ekki alveg á strik í dag og kom í hús á tveimur höggum yfir pari. Strákarnir léku allir á Lakes vellinum í dag og byrjuðu þeir allir á 10. teig.

Guðmundur var á parinu fyrir daginn í dag og lék hann við hvern sinn fingur framan af hring. Hann fékk fimm fugla á fyrstu 15 holunum en tapaði svo einu höggi á næst síðustu holunni og kom því í hús á 67 höggum, eða fjórum höggum undir pari. Guðmundur er jafn í 25. sæti á fjórum höggum undir pari en margir kylfingar eiga enn eftir að ljúka leik.

Bjarki byrjaði daginn á tveimur höggum yfir pari og eftir níu holur var hann búinn að vinna eitt högg til baka. Þá datt hann í mikið stuð og fékk fjóra fugla á síðari níu holunum og kom hann því í hús á 66 höggum, eða fimm höggum undir pari. Eftir daginn er Bjarki jafn í 38. sæti á þremur höggum undir pari.

Andri lék á pari vallar í gær og var lengi vel á parinu í dag. Eftir 12 holur var hann búinn að fá einn skolla, einn fugl og restina pör. Hann fékk svo tvo skolla á holum 4 og 5 og þar við stað. Hringinn endaði hann því á 73 höggum, eða tveimur yfir pari, og er hann jafn í 121. sæti á tveimur höggum yfir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.