Fréttir

Bjarki reynir við Evrópumótaröðina í haust | Heldur styrktarmót um helgina
Bjarki Pétursson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 21. ágúst 2019 kl. 20:31

Bjarki reynir við Evrópumótaröðina í haust | Heldur styrktarmót um helgina

Styrktarmót Bjarka Péturssonar verður haldið næsta sunnudag, þann 25. ágúst, í Borgarnesi á Hamarsvelli. Ástæðan fyrir mótinu er sú að Bjarki ætlar sér að reyna við úrtökumót fyrir Evrópumótaröð karla í haust.

Bjarki hefur undanfarin ár verið einn af okkar fremstu áhugakylfingum en hann lék til að mynda með einu besta háskólaliði Bandaríkjanna, Kent State, og náði þar góðum árangri.

Samkeppnin um sæti á Evrópumótaröð karla er hörð en á hverju ári taka um þúsund kylfingar þátt og takist leikmanni að komast í gegnum stigin þrjú þarf að spila 252 holur. Alls fá 25 kylfingar fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni að úrtökumótunum loknum en auk Bjarka ætla nokkrir íslenskir kylfingar að reyna fyrir sér í ár.

Fyrirkomulag styrktarmótsins er 4-manna texas scramble þar sem samanlögð forgjöf allra í liðinu er deilt í 5. Forgjöf má þó aldrei vera hærri en lægsta forgjöf í hollinu. Ræst verður út á öllum teigum klukkan 9 en mæting er klukkan 8:30 þar sem farið verður yfir leikfyrirkomulag, staðareglur, nándarverðaun og fleira.

Mótið fylltist áður en það var auglýst víða en sökum brottfalla hjá nokkrum liðum þá eru örfá holl enn laus.

Verðlaunin í mótinu eru frábær og er andvirði þeirra komið langt yfir eina milljón. Til þess að nefna eitthvað þá fá þeir fjórir sem eru í sigurliði mótsins, gistingu í eina nótt í svítunni á hótel B59 ásamt þriggja rétta kvöldverði þar, en B59 en glæsilegt nýtt hótel staðsett í Borgarnesi. Í nándarverðlaun á 2. braut verður vikudvöl í nýrri íbúð á Spáni en á þeirri braut verður fólki einnig gefinn kostur á því að kaupa annað högg og slá þar af leiðandi 2 bolta.

Mótsgjald er 60.000 kr. fyrir hollið/liðið, og ef einstaklingar hafa áhuga þá má endilega hafa samband við Bjarka og hann reynir að púsla saman liðum fyrir þá sem ekki hafa tök á því að finna fullt holl.

„Ég setti mér markmið fyrir mótið að nánast allir sem spila í mótinu fá mótsgjaldið til baka í formi vinninga og veitinga og var því markmiði náð!“ segir Bjarki. „Því fer enginn tómhentur heim úr mótinu og fá allir keppendur verðlaun. Að loki móts verður glæsilegt hádegishlaðborð að hætti B59.“

Skráning fer fram í gegnum Bjarka og er best að senda honum tölvupóst á bpeturss@gmail.com.


Leikið er á Hamarsvelli í Borgarnesi.