Fréttir

Branden Grace sigraði á LIV Golf Portland
Branden Grace
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 3. júlí 2022 kl. 00:52

Branden Grace sigraði á LIV Golf Portland

4 Aces GC, með Dustin Johnson í broddi fylkingar, sigraði í liðakeppninni

Suður-Afríkumaðurinn, Branden Grace, kom sá og sigraði á öðru móti LIV Golf Invitational mótaraðarinnar sem lauk á Pumpkin Ridge vellinum í Portland nú fyrir skömmu. Grace lék hringina þrjá á 203 höggum (69-69-65) eða á 13 höggum undir pari vallarins. Carlos Ortiz frá Mexíkó var annar á 11 höggum undir pari og í 3.-4. sæti voru Bandaríkjamennirnir og liðsfélagarnir í 4 Aces GC, Dustin Johnson og Patrick Reed.

Lið 4 Aces GC sigraði í liðakeppninni á 23 höggum undir pari, sjö höggum á undan Stinger GC, liði Grace, sem sigraði í liðakeppni fyrsta mótsins í London. Auk Reed og Johnson mynduðu landar þeirra, þeir Talor Gooch og Pat Perez lið 4 Aces GC. Í þriðja sæti varð lið Fireballs GC en Carlos Ortiz tryggði liði sínu þriðja sætið með frábæru pútti á lokaholunni.

Grace vann sér inn 4 milljónir og 375 þúsund Bandaríkjadali samtals fyrir sigurinn í einstaklingskeppninni ($4M) og sem liðsmaður Stinger GC sem hafnaði í öðru sæti liðakeppninnar ($375Þ). Til samanburðar hafði hann frá árinu 2008 og til dagsins í dag unnið sér inn tæpar 12 milljónir Bandaríkjadala samtals. Á þessu þriggja daga móti vann Suður-Afríkumaðurinn sér inn rúmlega þriðjung alls sem hann hafði unnið sér inn fyrir mót. Keppnistímabilið 2015-2016 var vænlegasta keppnistímabil Grace til þessa með tilliti til verðlaunafjár er hann vann sér inn tæpar 3 milljónir Bandaríkjadala það tímabil. Fram að þessu móti hafði hann á árinu unnið sér inn rúma 400 þúsund Bandaríkjadali. Þeir Dustin Johnson og Patrick Reed unnu sér inn rúmar 2 milljónir Bandaríkjadala samtals fyrir 3.-4. sætið ($1M og 275Þ) og sem liðsmenn sigurliðs 4 Aces GC ($750Þ). Til samanburðar hafði Reed fram að þessu unnið sér inn rúma 800 þúsund Bandaríkjadali á þessu keppnistímabili.

Bandaríkjamaðurinn Bryson Dechambeau varð í 10. sæti á 2 höggum undir pari, landi hans Bruce Koepka hafnaði í 16.-20. sæti á pari og annar Bandaríkjamaður, Phil Mickelson, sem talið er að hafi skrifað undir samning við LIV Golf að virði 200 milljón Bandaríkjadala varð í 40.-43. sæti á 10 höggum yfir pari.

Lokastaðan á mótinu

Grace jafnaði við Ortiz með fugli á 13. holu á meðan Ortiz fékk par. Johnson fékk skolla á holuna og lenti tveimur höggum á eftir þeim Grace og Ortiz. Grace vippaði í fyrir fugli á 16. holu og þá mátti sjá hvert stefndi. Hann setti svo niður gott pútt fyrir fugli á 17. holunni og eftirleikurinn var þægilegur.

Næsta mót á LIV Golf Invitational mótaröðinni fer fram undir lok þessa mánaðar á Trump National vellinum í Bedminster í New Jersey.

Ítarleg umfjöllun um mótaröðina