Fréttir

Brynjar 88 ára lék undir aldri tvisvar í sömu vikunni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 14. október 2025 kl. 23:27

Brynjar 88 ára lék undir aldri tvisvar í sömu vikunni

Suðurnesjakylfingurinn Brynjar Vilmundarson hefur að undanförnu leikið tvisvar sinum á skori undir lífaldri en sá gamli er fæddur 1937 og er 88 ára. Í fyrstu viku október mánaðar lék Brynjar 18 holu hringinn í leirunni á 83 og síðan 87 höggum.

Samhliða þessari góðu spilamennsku hefur forgjöfin lækkað um heil þrjú högg, og sveiflan eins og flott sinfónía.

Brynjar segir að lykilinn að árangrinum sé einbeiting við hvert högg – að velja stefnu á flöggin, ekki eyða of löngum tíma í undirbúninginn og halda athyglinni á því sem maður ætlar sér að gera.

Brynjar er einn af elstu félögum Golfklúbbs Suðurnesja, bæði í lífaldri og í fjölda ára sem félagi í GS. Hann tók að vísu pásu um nokkurn tíma en kom aftur til leiks í Leirunni fyrir all nokkru síðan og er með duglegri kylfingum klúbbsins, hvort sem er í leik eða góðu spjalli, og þekkir vel til fólks og staða á svæðinu.

Brynjar þekkir vel til á Suðurnesjum og er duglegur að segja sögur af mannfólkinu og mannlífinu á Suðurnesjum. 

Það er því við hæfi að láta lífsseiga sögu um kappann fylgja með. Brynjar og góðvinur hans Þorgeir Þorsteinsson, lögreglustjóri á Keflavíkurfluguvelli voru duglegir kylfingar á yngri árum. Þeir ákváðu að fara í golf á Nesinu og fóru snemma morguns, léku tvisvar 9 holur og héldu heim á leið en voru hvergi nærri saddir á golfi. Ákváðu því að stoppa á Hvaleyrinni og taka einn hring þar enda veðrið gott og fallegur sumardagur. Þeir voru ánægðir í Hafnarfirði og ræddu golfhringinn á Reykjanesbrautinni en þegar þeir voru komnir lang leiðina að Vogastapa horfðu þeir hvor á hinn og sögðu nánast samtímis, „við endum góðan dag í Leirunni.“ Já, þeir fóru á þriðja golfvöllinn á sama deginum, á sinn góða heimavöll og tóku 9 holur. Brynjar ók svo sýslumanninum sem Þorgeir var oft kallaður til síns heima í Grænás en þegar hann sjálfur kom heim í Baugholtið í Keflavík var sólin sest og komið vel yfir miðnætti. Brynjar reyndi að læðast inn en þegar hann opnar útihurðina stendur Kristín, eiginkona hans í ganginum og kemur sér beint að efninu og segir: Ekki reyna að segja mér að þú hafir veriði golfi - hvað heitir hún?