Fréttir

Dagbjartur búinn að semja við Missouri háskólann
Dagbjartur Sigurbrandsson. Mynd: Twitter síða Mizzou Men's Golf
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 4. desember 2020 kl. 17:30

Dagbjartur búinn að semja við Missouri háskólann

Dagbjartur Sigurbrandsson GR skrifaði á dögunum undir hjá Missouri háskólanum þar sem hann mun spila golf fyrir liðið næstu ár. Í skólanum er nú þegar einn íslenskur kylfingur en klúbbfélagi Dagbjarts, Viktor Ingi Einarsson, hóf nám við skólann í fyrra og hefur spilað fyrir golfliðið.

Dagbjartur, sem hefur verið einn besti kylfingur landsins undanfarin ár, sagði í samtali við Kylfing að valið hafi staðið á milli 30 skóla. „Það voru um það bil 30 skólar sem höfðu samband við mig svo ég gat svolítið valið skóla. Háskólagolfið hefur alltaf verið í huga hjá mér en ég byrjaði að hugsa aðeins meira um það síðasta sumar.“

Að sögn Dagbjarts skemmdi það ekki fyrir að hafa Íslending í liðinu þegar kom að því að velja skóla. „Mér leist mjög vel á þjálfarann og svo hjálpaði það til að Viktor Ingi væri í liðinu. Við Viktor höfum talað um það lengi að fara út í skóla saman. Svo fór ég út og skoðaði skólann í febrúar á þessu ári og leist mjög vel á aðstæður.“

Missouri skólinn er í 1. deild og er í SEC deildinni (e. Southeastern Conference) sem er með þeim stærstu og sterkustu í Bandaríkjunum að sögn Dagbjarts. Þá er skólinn sjálfur í 34. sæti á landsvísu eftir tímabilið í haust og er á uppleið. Dagbjartur heldur út til Bandaríkjanna næsta haust en í millitíðinni ætlar hann að klára námið í Borgarholtsskóla og stefnir á útskrift í vor.