Fréttir

Dagbjartur sjóðheitur og Guðmundur bætti sig en Haraldur á yfir pari
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 31. október 2025 kl. 18:10

Dagbjartur sjóðheitur og Guðmundur bætti sig en Haraldur á yfir pari

Tveir af þremur íslensku kylfingunum á úrtökumótunum bættu sig á öðrum degi en keppnin er hörð enda mikið í húfi. Eftir tvo daga er Dagbjartur í bestu málunum af þeim þremur, jafn í 21. sæti en 24 efstu kylfingarnir komast á lokastigið. Keppt er á fjórum völlum á Spáni.

Dagbjartur lék frábært golf á öðrum hring. Hann fékk sex fugla og aðeins einn skolla og endaði hringinn á fimm undir pari og vann sig vel upp listann. Frábært golf hjá Íslandsmeistaranum sem er í fyrsta sinn í úrtökumótum. Hann er jafn í 21. sæti og við ætlum ekki að hugsa um neitt „ef“ hérna og sendum okkar manni góða strauma fyrir næstu tvo hringi.

Staðan hjá Dagbjarti.

Haraldur Franklín var ekki upp á sitt besta í dag og var kominn þrjá yfir eftir sjö holur. Hann endaði með fimm slíka, tvo fugla og einn örn og endaði hringinn á einu höggi yfir pari. Hann er fjórum höggum á eftir þeim sem eru í topp 24 og þarf að eiga tvo góða lokahringi til að komast áfram.

Staðan hjá Haraldi.

Guðmundur Ágúst lék miklu betra golf á öðrum hring. Hann fékk fimm fugla og tvo skolla og endaði hringinn á þremur undir pari og kom sér á parið. Gummi er fjögur högg frá topp 24 og vonandi heldur hann áfram að bæta sig og tryggja sig þangað inn.

Staðan hjá Guðmundi.