Nettó - Samkaup
Nettó - Samkaup

Fréttir

Dustin Johnson og Carlos Ortiz deila efsta sætinu fyrir lokahringinn
Dustin Johnson leiðir mótið fyrir lokahringinn ásamt Carlos Ortiz
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 2. júlí 2022 kl. 15:22

Dustin Johnson og Carlos Ortiz deila efsta sætinu fyrir lokahringinn

4 Aces GC leiða liðakeppnina

Úrslit ráðast á LIV Golf Invitational Portland í kvöld. Mótið er annað mótið á keppnistímabili hinnar nýju mótaraðar sem hófst á Centurion vellinum í London í júní.

Mótaröðin, sem hefur í umræðunni oft verið kölluð hin sádíarabíska ofurdeild samanstendur af átta mótum í ár. Fjögur til viðbótar verða leikin í Bandaríkjunum og þá verður leikið í Bangkok á Taílandi og Jeddah í Sádí-Arabíu.

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

Mótin eru talsvert frábrugðin því sem við eigum að venjast frá mótaröð þeirra bestu og á risamótum en bæði er leikið í einstaklings og liðakeppni. Þá er ræst út frá öllum teigum samtímis. Á mótunum leika 48 kylfingar í 12 fjögurra manna liðum og leiknir eru þrír hringir en ekki fjórir. Enginn niðurskurður er á mótunum.

Það var Suður-Afríkumaðurinn, Charl Schwartzel, sem sigraði í London í júní og lið Stinger GC sem var hlutskarpast í liðakeppninni.

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson og Carlos Ortiz frá Mexíkó deila forystunni fyrir lokahringinn í kvöd á 8 höggum undir pari Pumpkin Ridge vallarins, tveimur höggum betur en Suður-Afríkumaðurinn Branden Grace. Bandaríkjamennirnir Brooks Koepka og Patrick Reed eru í 5.-9. sæti á 4 höggum undir pari og landi þeirra Bryson DeChambeau í 10.-11. sæti á 3 höggum undir pari. Bandaríkjamennirnir Matt Wolff og Kevin Na eru í 14.-16. sæti á 1 höggi undir pari. Meðal þekktra kylfinga neðar á skortöflunni eru Spánverjinn Sergio Garcia á 2 höggum yfir pari, sigurvegarinn frá í London, Charl Schwartzel frá Suður-Afríku á 3 höggum yfir pari og Bandaríkjamaðurinn Phil Mickelson, sem er sagður hafa skrifað undir verðmætasta samninginn við LIV Golf til þessa upp á um 200 milljónir Bandaríkjadala, á 6 höggum yfir pari vallarins.

Staðan á mótinu

Í liðakeppninni er það lið 4 Aces GC sem leiðir á 15 höggum undir pari og hefur fjögurra högga forskot á lið Stinger GC. Lið 4 Aces er skipað Bandaríkjamönnunum Pat Perez, Patrick Reed og Talor Gooch auk Dustin Johnson sem er fyrirliði liðsins.

Verðlaunafé á LIV Golf á sér engin fordæmi. Á fyrstu sjö mótunum eru 20 milljónir Bandaríkjadala í boði í einstaklingskeppninni og 5 milljónir í liðakeppninni. Þrír efstu kylfingarnir á stigalista einstaklingskeppninnar að loknum mótunum sjö, skipta með sér 30 milljónum Bandaríkjadala að því gefnu að þeir hafi leikið á a.m.k. fjórum mótum. Á lokamótinu sem verður liðakeppni með holukeppnisfyrirkomulagi verða 50 milljónir Bandaríkjadala í boði þar sem sigurliðið skiptir með sér 16 milljónum Bandaríkjadala og liðið sem verður í 12. og neðsta sætinu skiptir með sér 1 milljón Bandaríkjadala. Samtals eru því í boði 255 miljónir Bandaríkjadala í verðlaunafé á mótunum átta.

Viaplay sýnir beint frá öllum hringjunum á mótinu og hefst útsending frá lokahringnum klukkan 20:00 á íslenskum tíma.

Ítarleg umfjöllun um mótaröðina