Efnilegasti kylfingur Íslands fyrr og síðar?
Meistaramót golfklúbbanna eru í fullum gangi þessa dagana en 22.-24. júní spiluðu unglingarnir í Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Spilaðar voru 54 holur af gulum teigum, sem almennt séð eru aftari teigar á golfvöllum og þeir rauðu þ.a.l. fremri teigarnir. Hjalti Kristján Hjaltason vann öruggan sigur, setti met og má leiða talsverðar líkur að því að hér sé eitt mesta efni í golfi sem fram hefur komið.
Hjalti lék hringina þrjá á samtals -16 en slíkt skor er fáheyrt hér á landi. Skorið hans var eftirfarandi: 67-67-63 en par vallarins er 71. Hjalti setti vallarmet á gulum teigum á lokahringnum, 63 högg eða -8 og m.a. endaði hann hringinn á að taka fjóra fugla í röð! Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum fimmtán ára gutta í framtíðinni.

Vallarmet Hlíðarvallar í Mosfellsbæ
Hvítir teigar
Eyþór Hrafnar Ketilsson, 63 högg (2. júlí 2025)
Gular teigar
Hjalti Kristján Hjaltason, 63 högg (24. júní 2025)
Bláir teigar
Bryndís Eva Ágústsdóttir, 67 högg (17. ágúst 2024)
Rauðir teigar
Auður Bergrún Snorradóttir, 68 högg (19. júní 2024)