Fréttir

Eins dauði er annars brauð
Luke Donald í Ryder Bikarnum 2010. Ljósmynd: golfsupport.nl/Jos Linckens
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 2. ágúst 2022 kl. 16:28

Eins dauði er annars brauð

Luke Donald útnefndur fyrirliði Ryder Bikarliðs Evrópu – Henrik Stenson settur af eftir að hafa gengið til liðs við LIV Golf

Englendingurinn, Luke Donald hefur verið útnefndur fyrirliði Ryder Bikarliðs Evrópu eftir að hinn sænski, Henrik Stenson var settur af vegna þess að hann hefur gengið til liðs við LIV Golf.

Donald lék með liði Evrópu árin 2004, 2006, 2010 og 2012 en lið Evrópu sigraði í öllum keppnunum sem Donald tók þátt í. Þá hefur Donald tvisvar verið ein af varafyrirliðum liðsins.

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Stenson var útnefndur fyrirliði liðs Evrópu í mars sl. en var settur af í lok júlí eftir að hafa gengið til liðs við LIV Golf. Stenson sagði við það tilefni að útnefning sín sannaði að stundum verði draumar að veruleika. Hann hefur þó nú þegar fengið sárabætur í gegnum hina nýju mótaröð en hann stóð uppi sem sigurvegari í jómfrúarmóti sínu um liðna helgi. Svíinn fékk í sinn hlut 4 milljónir og 375 þúsund dollara í verðlaunafé fyrir bæði sigurinn í einstaklingskeppninni og fyrir að vera hluti af liði Majesticks sem hafnaði í öðru sæti liðakeppninnar.

Eftir að hafa hlotið útnefningunar lét Luke Donald hafa eftir sér að hann væri bæði þakklátur og að hann liti á útnefningu sína sem mikinn heiður.

Zach Johnson mun sem kunnugt er leiða lið Bandaríkjanna gegn liði Evrópu í Róm. Johnson tekur við af Steve Stricker.

Ryder Bikarinn mun fara fram á Marco Simone vellinum rétt utan Rómar í kringum mánaðamótin september, október á næsta ári.

Daninn Thomas Bjorn og hinn ítalski Edoardo Molinari höfðu verið útnefndir varafyrirliðar Stenson og munu verða það fyrir Donald sömuleiðis.