Fréttir

Els vann sitt fyrsta öldungamót
Ernie Els.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 10. mars 2020 kl. 16:23

Els vann sitt fyrsta öldungamót

Fyrrum efsti kylfingur heimslistans Ernie Els fagnaði 50 afmæli sínu seint á síðasta ári. Með því að ná þessum aldri varð Els gjaldgengur á PGA Tour Champions mótaröðinni en það er öldungamótaröð PGA samsteypunnar.

Els hefur farið gríðarlega vel af stað á sínu fyrsta tímabili á mótaröðinni en hann hefur leikið í þremur mótum af þeim fimm sem hafa verið haldin. Í fyrsta mótinu sem hann tók þátt tapaði hann í bráðabana um sigurinn fyrir Miguel Angel Jiménez. Hann endaði svo jafn í 34. sæti í öðru mótinu sínu og svo nú um helgina gerði hann sér lítið fyrir og fagnaði sínum fyrsta sigri.

Mótið sem fór fram um helgina var Hoag Classic mótið og endaði Els á samtals 16 höggum undir pari. Hann lék hringina þrjá á 66-64-67 höggum og endaði hann tveimur höggum á undan þeim Glen Day, Fred Couples og Robert Karlsson.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.