Fréttir

Endaði keppnistíðina með erni á lokaholunni komin 7 mánuði á leið
Lindsey Weaver-Wright á Opna Breska mótinu í sumar. Mynd/golfsupport.nl
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 11. október 2023 kl. 11:04

Endaði keppnistíðina með erni á lokaholunni komin 7 mánuði á leið

Bandaríski kylfingurinn Lindsey Weaver-Wright endaði golfkeppnistímabilið á LPGA mótaröðinni með glæsilegum erni á lokaholunni í móti um síðustu helgi. Það sem er sérstakt við þennan endi hjá Wright er að hún er kominn sjö mánuði á leið og þetta var hennar síðasta mót á meðgöngunni.

Hún tilkynnti í júní að hún væri ólétt og ætti von á dreng. Wright lét ekki óléttuna stoppa sig og hefur leikið gott golf. Hún endaði í 16. sæti í mótinu og í tíunda sæti vikuna á undan. Hún náði þessu flotta lokahöggi á velli þar sem hún er félagi, Old American Golf Club og býr í nágrenninu. „Þetta er magnað og ótrúlegt,“ sagði hún eftir hringinn en á óléttutímanum hefur hún verið með stól með sér í keppnum til að tylla sér á milli högga því hún verið slæm í baki á meðgöngunni. Hún gerði það hins vegar ekki í þessu móti. „Þetta hefur verið erfitt, ég viðurkenni það. Ég er bara heppin að hafa getað leikið golf á meðgöngunni,“ sagði hún og stefnir á að mæta aftur á keppnisvöllinn í mars.

Wright, sem er þrítug, hefur unnið sér inn verðlaunafé fyrir um 40 milljónir króna á tímabilinu, er í 70. sæti á LPGA en hún gerðist atvinnumaður 2018.