Fréttir

Enginn Íslendinganna komst áfram á lokamótið
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 3. nóvember 2025 kl. 10:00

Enginn Íslendinganna komst áfram á lokamótið

Enginn íslensku kylfingarnanna komust áfram á lokastig úrtökumótanna fyrir DP World mótaröðina. Þeir Dagbjartur Sigurbrandsson, Haraldur Franklín og Guðmundur Ág. Kristjánsson áttu allir möguleika með góðum lokahring en voru allir nokkuð frá sínu besta og náðu því ekki takmarkinu.

Dagbjartur Sigurbrandsson var höggi frá topp 24 fyrir lokahringinn en lék fjórða hringinn á einu höggi yfir pari og endaði 72 holurnar á fjórum undir pari og var fimm högg frá því að komast áfram. Engu að síður góð frammistaða hjá Íslandsmeistaranum sem var að taka þátt í úrtökumótum í fyrsta sinn.

Lokastaðan hjá Dagbjarti.

Haraldur Franklín náði ekki að fylgja eftir frábærum seinni níu holum á þriðja hring sem hann lék á sex undir pari. Hann hóf leik á seinni níu í lokahringnum og var einn undir pari en hafi hann fylgst með skorinu sem við gerum ráð fyrir, þurfti hann að leika ákveðið á síðustu níu holunum. Hann lék þær á fjórum yfir pari, fékk þrjá skolla, einn tvöfaldan skolla og eitt fugl og endaði lokahringinn því á +3 og endaði því mótið á þremur undir pari og jafn í 56. sæti, átta höggum frá topp 24.

Lokastaðan hjá Haraldi.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson byrjaði lokahringinn illa en hann hóf leik á tíundu holu. Hann fékk þrjá skolla á síðustu fjórum holunum og þurfti því að setja í þriða gír á síðustu níu holunum. Hann gerði það svo sannarlega, fékk fimm fugla en 8 högg á 6. holunni (par 5) voru honum dýr því hann endaði fimm höggum frá topp 24. Guðmundur endaði á tveimur undir pari í heildina en hefði þurft að vera sjö undir.

Lokastaðan hjá Guðmundi.