Fréttir

Enn tekst Finau ekki að sigra
Tony Finau.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 22. febrúar 2021 kl. 18:20

Enn tekst Finau ekki að sigra

Bandaríkjamaðurinn Tony Finau endaði í öðru sæti á Genesis Invitational mótinu sem fór fram um helgina á PGA mótaröðinni í golfi. Finau lék hringina fjóra á 12 höggum undir pari en tapaði gegn Max Homa í bráðabana um sigurinn.

Finau hefur verið í frábæru formi undanfarnar vikur og hefur nú endað í 2. sæti í þremur mótum í röð. Það eina sem hann vantar er að vinna mót en hann hefur einungis unnið eitt mót á PGA mótaröðinni á sínum ferli þrátt fyrir að hafa verið einn besti kylfingur heims í töluverðan tíma.

Justin Ray, sem er sérfræðingur hjá PGA mótaröðinni, tók saman tölfræði þar sem fram kemur að Finau er í algjörum sérflokki af þeim kylfingum sem hefur ekki tekist að vinna mót frá árinu 2017.

Á þessu tímabili hefur Finau endað 37 sinnum í topp-10 á PGA mótaröðinni án sigurs en næstir eru þrír kylfingar sem hafa 16 sinnum endað topp-10.