Fréttir

Evrópumótaröð karla: Hatton, Arnaus og Harding byrjuðu best
Tyrrell Hatton.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 8. október 2020 kl. 16:28

Evrópumótaröð karla: Hatton, Arnaus og Harding byrjuðu best

Englendingurinn Tyrrell Hatton, Spánverjinn Adri Arnaus og Justin Harding frá Suður-Afríku deila forystunni á BMW PGA meistaramótinu sem hófst í dag á Evrópumótaröð karla.

Hatton, Arnaus og Harding léku allir á 6 höggum undir pari á fyrsta keppnisdeginum en leikið er á Wentworth golfvellinum í Surrey á Englandi.

Fjórir kylfingar deila 4. sætinu á 5 höggum undir pari, þar á meðal Eddie Pepperell og risameistarinn Shane Lowry.

Sigurvegari síðustu helgar, Aaron Rai, byrjaði vel í dag og er jafn Justin Rose og fleiri kylfingum á 4 höggum undir pari, jafn í 8. sæti.

Efsti kylfingur mótsins á heimslistanum, Patrick Reed, byrjaði mótið af krafti í dag og var á 5 höggum undir pari eftir 13 holur í morgun. Honum fataðist þó flugið á lokaholunum og endaði daginn á 2 höggum undir pari og er jafn í 24. sæti.

Annar hringur mótsins fer fram á föstudaginn. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.