Fréttir

Evrópumótaröð karla: Öruggur sigur hjá Hatton á Wentworth
Tyrrell Hatton. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 11. október 2020 kl. 21:00

Evrópumótaröð karla: Öruggur sigur hjá Hatton á Wentworth

Englendingurinn Tyrrell Hatton sigraði í dag á BMW PGA meistaramótinu sem fór fram um helgina á Evrópumótaröð karla í golfi. Leikið var á Wentworth vellinum í Englandi og lék Hatton hringina fjóra í mótinu á 19 höggum undir pari og varð að lokum fjórum höggum á undan Victor Perez sem varð annar.

Lokahringurinn var þó nokkuð spennandi því á tímabili munaði einungis höggi á þeim Hatton og Perez en Perez fékk tvo skolla á síðustu sex holum dagsins á meðan Hatton fékk tvo fugla á sama tíma.

Hatton hefur nú sigrað á fimm mótum á Evrópumótaröðinni en sá fyrsti kom árið 2016. Hann hefur einnig sigrað á móti á PGA mótaröðinni en hans fyrsti og eini sigur þar kom á Arnold Palmer Invitational mótinu fyrr í ár.

Andy Sullivan og Patrick Reed enduðu jafnir í þriðja sæti á 14 höggum undir pari. Með árangrinum hélt Reed efsta sætinu á Race to Dubai stigalistanum.

Hér er hægt að sjá úrslit mótsins.

Staða efstu kylfinga:

1. Tyrrell Hatton, -19
2. Victor Perez, -15
3. Patrick Reed, -14
3. Andy Sullivan, -14
5. Ian Poulter, -13
6. Eddie Pepperell, -12