Fréttir

Evrópumótaröð karla: Sendur heim út af kórónaveirunni
Francesco Laporta.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 4. mars 2020 kl. 17:02

Evrópumótaröð karla: Sendur heim út af kórónaveirunni

Kórónaveiran er farin að hafa áhrif víða og nú í vikunni var kylfingi vísað heim frá Katar og fær því ekki að leika á Qatar Masters mótinu sem hefst á morgun á Evrópumótaröð karla.

Ítalinn Francesco Laporta flaug til Dóha til að leika í mótinu en þegar þangað var komið var honum tilkynnt að hann yrði annað hvort að fara í 14 daga sóttkví eða fljúga aftur þaðan sem hann flaug, sem var Ítalía.

Yfirvöld í Katar hafa tekið þá ákvörðun að allir þeir sem koma í beinu flugi frá Ítalíu eða hafa dvalið þar síðustu tvær vikurnar þurfi annað hvort að fara í sóttkví í 14 daga eða fljúga til baka.

Laporta sagði þetta skrítna stöðu sem hann hefði litla stjórn á.

„Ég kom á flugvöllinn ásamt 40 öðrum einstaklingum sem voru að koma frá Mílan. Allir komu vel fram við okkur en við fengum tvö kosti: sóttkví í tvær vikur eða fara til baka, ég gat ekkert gert. Ég flaug til Róm og núna ætla ég til Puglia.“

„Þetta er skrítin staða, sem ég get ekki lýst en hún refsar mér mikið. Ég var ekki með neinn hita eða neitt en ég veit ekkert hvenær ég get byrjað að spila aftur. Í næstu viku á ég að spila í Kenya Open mótinu en ég veit ekki hvort ég muni geta það út af aðstæðum.“