Fréttir

Evrópumótaröð kvenna: Áhugakylfingur í efsta sæti fyrir lokadaginn í Ástralíu
Stephanie Kyriacou.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 22. febrúar 2020 kl. 18:30

Evrópumótaröð kvenna: Áhugakylfingur í efsta sæti fyrir lokadaginn í Ástralíu

Þegar einum hring er ólokið á Geoff King Motors Australian Ladies Classic mótinu á Evrópumótaröð kvenna er það heimakonan Stephanie Kyriacou sem er með tveggja högga forystu á Lauren Stephenson. Það vekur athygli að Kyriacou er aðeins 19 ára gömul og er enn áhugakylfingur.

Kyriacou lék á 69 höggum í nótt, eða þremur höggum undir pari, og er hún samtals á 15 höggum undir pari. Annar hringurinn hjá Kyriacou var frábær en þá kom hún í hús á 63 höggum eða níu höggum undir pari.

Stephenson er ein í öðru sæti á 13 höggum undir pari. Hún kom í hús á 73 höggum í nótt, eða höggi yfir pari.

Ayean Cho, sem hefur verið að gera það gott á LPGA mótaröðinni undanfarnar vikur er ein í þriðja sæti á 12 höggum undir pari.

Lokahringur mótsins fer fram í nótt en hérna má sjá stöðuna í mótinu.

Þær Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir voru báðar á meðal keppenda en komust ekki í gegnum niðurskurðinn.