Fréttir

Evrópumótaröðin: Migliozzi ekki enn kominn í topp-20 þrátt fyrir tvo sigra
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 4. júní 2019 kl. 06:30

Evrópumótaröðin: Migliozzi ekki enn kominn í topp-20 þrátt fyrir tvo sigra

Ítalinn Guido Migliozzi er búinn að eiga frábært tímabil á Evrópumótaröð karla til þessa.

Migliozzi, sem er nýliði á mótaröðinni, fagnaði sínum fyrsta sigri á Kenya Open mótinu í mars. Fyrir það hafði hann átt erfitt uppdráttar og einungis komist tvisvar í gegnum niðurskurðinn í sjö tilraunum.

Eftir sigurinn hefur Migliozzi hins vegar blómstrað og komist í gegnum niðurskurðinn sjö mót í röð og meðal annars fagnað sigri á Belgian Knockout mótinu sem fór fram um helgina.

Þrátt fyrir þennan árangur er Migliozzi ekki á meðal 20 efstu á stigalista mótaraðarinnar sem var uppfærður um helgina. Migliozzi situr í 21. sæti og er á eftir nokkrum kylfingum sem eiga enn eftir að vinna mót í ár en hafa staðið sig vel á mótum með mikið vægi á listanum.

Sem dæmi þá er Kevin Kisner í efsta sæti stigalistan eftir einungis fjögur mót á tímabilinu. Hann sigraði hins vegar á Heimsmótinu í holukeppni sem gaf honum 1.500 stig samanborið við þau 335 stig sem Migliozzi fékk fyrir sigurinn um helgina.

Næsta mót á Evrópumótaröðinni er GolfSixes mótið sem fer fram í Portúgal dagana 7.-8. júní.

Staða efstu kylfinga á stigalista Evrópumótaraðarinnar:

1. Kevin Kisner, 1.606 stig
2. Matt Wallace, 1.599 stig
3. Shane Lowry, 1.533 stig
4. Jorge Campillo, 1.397 stig
5. Justin Harding, 1.338 stig
21. Guido Migliozzi, 832 stig