Fréttir

Fær sitt fyrsta tækifæri á Evrópumótaröðinni 41 árs gamall
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 11. október 2020 kl. 14:30

Fær sitt fyrsta tækifæri á Evrópumótaröðinni 41 árs gamall

Ross Cameron er atvinnukylfingur sem fáir þekkja enda hefur hann verið að leika á minni mótaröðum um Evrópu frá því hann gerðist atvinnukylfingur. Hinn 41 árs gamli Cameron er hins vegar að fara spila á Opna skoska mótinu á Evrópumótaröð karla dagana 15.-18. október en það verður fyrsta mótið hans á þessari sterkustu mótaröð Evrópu.

Cameron hefur nú unnið tvö mót á PGA mótaröðinni í Skotlandi með stuttu millibili og fékk fyrir árangurinn boð á Opna skoska mótinu. Boðið er sérstaklega velkomið fyrir Cameron sem hefur haldið áfram að elta drauminn í allan þennan tíma. Fyrr á þessu ári vann Cameron til að mynda í hlutastarfi í stórmarkaði til að hafa efni á mótum ársins.

„Ég er nokkuð viss um að ég muni brosa þegar ég mæti á staðinn því ég hlakka til,“ sagði Cameron í viðtali við Scotsman.

„Ég er búinn að spila í öll þessi ár og ef ég hefði ekki fengið tækifæri í að spila í móti á þessum mælikvarða hefði ég líklega litið til baka með eftirsjá. Að fá þetta boð er einfaldlega frábært.“

Cameron hefur aðallega verið að spila á ProGolf mótaröðinni í Þýskalandi undanfarin ár og verður með þátttökurétt þar á næsta ári 16. tímabilið í röð. 

„Þegar ég lít til baka eru líklega einhverjir hlutir sem ég hefði getað gert öðruvísi því það hefur tekið langan tíma að komast hingað. Þrautseigja er stór þáttur og ég held að tilfinningin sé betri eftir að hafa farið í gegnum svona marga lágpunkta í gegnum ferilinn.

Mögulega hafði ég það of þægilegt í of langan tíma. Ég var ekki með almennilegt plan þegar ég ákvað að verða atvinnukylfingur. Líklega hefði ég grætt á að hafa einhvern í kringum mig á þeim tíma sem hefði getað leiðbeint mér.“


Ross Cameron.