Fréttir

Fjör á Titleist mótaröðinni
Fimmtudagur 9. febrúar 2023 kl. 00:00

Fjör á Titleist mótaröðinni

Titleist mótaröðin er samstarfsverkefni þjálfara í golfklúbbum sem bjóða upp á barna- unglinga og afreksstarf og er öllum frjálst að taka þátt. Fjölmargir afrekskylfingar af yngri kynslóðinni leika á Titleist mótaröðinni 

Úlfar Jónsson, margfaldur Íslandsmeistari í golfi og þjónustustjóri hjá GKG hefur umsjón með mótaröðinni, en leikið er í Trackman golfhermum. „Þetta lyftir upp vetrarstarfinu að geta keppt í mótaröð sem stendur yfir allan veturinn og borið sig þannig saman við aðra kylfinga í öðrum klúbbum, en ekki síst að keppa við sjálfan sig og sjá framfarir yfir vetrartímann.“ 

Markmiðið með Titleist mótaröðinni, líkt og Landsmótinu í golfhermum, er að búa til fleiri verkefni fyrir okkar framtíðarkylfinga, sem og þá bestu á okkar langa undirbúningstímabili. Flestir golfklúbbar hafa komið sér upp æfingaaðstöðu með golfhermum og er TrackMan algengasta græjan. TrackMan býður upp á góða möguleika hvað varðar mótaraðir og því er þetta öflug keppnisþjálfun fyrir okkar kylfinga.

Fyrirkomulag Titleist mótaraðarinnar er þannig:

Leikinn er höggleikur án forgjafar. Keppt er í eftirfarandi flokkum, kk og kvk.

Mfl. 19 ára og eldri.

15-18 ára

14 ára og yngri

Leiknar eru 9 holur (seinni níu á hverjum velli).

Fjórir bestu hringirnir telja í heildarkeppninni.

Þremur umferðum af átta er nú lokið.

Fyrsti hringur var leikinn á The Summit Club í Las Vegas, annar hringurinn var á Korpunni (Áin) og sá þriðji á Driftwood Ranch í Texas. Fjórða umferðin er leikin þessa dagana eða fram til 19. febrúar - leikið er á Leirdalsvelli GKG. Fimmta umferð verður á Ryder velli þeirra Ítala, Marco Simone, sjötta umferðin á Grafarholtsvelli, sjöunda á Old Course í St. Andrews og sú áttunda á Adare Manor þar sem leikið verður um Ryder bikarinn 2027.

Sannarlega skemmtileg mótaröð fyrir afrekskylfingana okkar. Kylfingur.is mun fylgjast með.