Fréttir

Fjórfaldur Íslandsmeistari tilkynnti brot hjá sér og fékk frávísun
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 19. júlí 2022 kl. 20:21

Fjórfaldur Íslandsmeistari tilkynnti brot hjá sér og fékk frávísun

Þremur öðrum keppendum vísað úr Íslandsmóti eldri kylfinga. Keppendur í verðlaunasæti brutu keppnisreglur.

„Mig grunar að keppendur hafi púttað á flöt eftir að hafa lokið leik á holu einfaldlega út af því að þeir vissu ekki betur, ekki að þeir hafi viljandi verið að svindla,“ segir Björgvin Sigurbergsson, fjórfaldur Íslandsmeistari í golfi en á lokadegi Íslandsmóts eldri kylfinga á Jaðarsvelli á Akureyri síðasta laugardag, rétt áður en hann átti að hefja leik í síðasta ráshópi, greindi hann mótsstjórn frá því að hann hafi ekki skrifað undir rétt skor hjá meðspilara á öðrum keppnishring og yrði því að sæta frávísun. Kylfingur.is er með áreiðanlegar heimildir um að keppendur sem fengu verðlaun á þessu Íslandsmóti brutu reglu sem öðrum var vísað úr keppni fyrir að gera. 

Málið snýst um að í alþjóðlegum golfreglum R&A er heimilt að pútta að loknum leik á flöt en í mótsreglum Golfsambands Íslands er það ekki. Reglurnar stangast á en ástæðan er sögð vera til að koma í veg fyrir tafir á leik sem skapast þegar kylfingar eru að endurtaka pútt á flöt. Mikil umræða skapaðist um málið á samfélagsmiðlum þegar þrír kylfingar fengu frávísun úr mótinu að loknum öðrum keppnisdegi af þremur. Tveir fengu frávísun fyrir að skrá rangt skor (bættu ekki við vítahöggum sem þeim var tilkynnt um) og sá þriðji fyrir að skrifa visvítandi undir rangt skor.

Pistill Margeirs

„Að morgni síðasta keppnisdags sá ég færslu á Facebook frá Margeiri Vilhjálmssyni, einum af keppendum í mótinu, en hann sagði frá uppákomu í sínum ráshópi sem endaði með því að hann og félagar hans í hollinu fengu allir frávísun. Ég lenti í svipuðu atviki þar sem ég var með vitneskju um reglubrot annars af tveimur meðspilurum mínum en gleymdi að segja honum það og skrá það áður en ég skrifaði skorið hans og þurfti því að bíta í það súra epli að hætta leik,“ segir Björgvin.
Félagar Margeirs í ráshópnum fengu frávísun fyrir að skrá rangt skor á skorkort og hann fyrir að samþykkja það með undirritun skorkorts. 

Í frásögn Margeirs segir að við frágang á skorkortum að leik loknum vildu þeir ekki una niðurstöðu dómara um tvö vítishögg fyrir að pútta á flöt eftir að hafa lokið leik á 17. holu  en þeir höfðu allir fengið úrskurð hjá dómara sem kom til þeirra á 18. flöt og sagði þeim að þeir ættu að skrá á sig vítishögg fyrir atvikið. Margeir spurði dómara mótsins þegar hann kom til þeirra, hvort hann væri ekki til í að hitta þá við frágang skorkorta og skýra málið því þeir könnuðust ekki við regluna en hann hafi ekki gert það heldur rokið í burtu. Leikmennirnir tveir, meðspilarar í hollinu með Margeiri sögðust ekki ætla að sæta úrskurði dómarans og skráðu ekki vítahögg á sig. Margeir skrifaði undir skorkort annars þeirra sem ritari hans í hollinu og fékk því líka frávísun fyrir að skrifa visvítandi undir rangt skor. 

Margeir fór mikinn í pistli sínum á Facebook eftir að hafa fengið frávísunina og var ósáttur við framkomu dómarans og að kynningu á mótsreglum eða svokölluðum staðarreglum, hafi verið mjög ábótavant. Hér má sjá pistil Margeirs.

Margir taka undir orð Margeirs en aðrir benda á að úrskurður dómara hafi komið og ekki væri hægt að hundsa hann.

„Þessi staðarregla er andstætt sjálfum golfreglunum en GSI hefur ákveðið með tilliti til leikhraða að banna allar æfingar á milli hola. Það merkir að viðkomandi leikmenn bökuðu sér víti, og dómarinn hefur líklegast viljað tilkynna það sem fyrst. Það að leikmenn og ritari hafi neitað að taka á sig víti er andstætt golfreglunum og þeir verða að virða öll víti sem dómari tilkynnir þeim, og skrá það samviskulega á skorkortið,“ segir í einum ummælum við pistli Margeirs á Facebook.

Það vakti athygli að annar meðspilari Björgvins á öðrum keppnisdegi, fékk ekki frávísun fyrir sama brot heldur einungis tvö högg í víti en hann púttaði á 4. flöt að loknum leik, eins og félagar Margeirs á 17. flöt. Því atviki greindi Björgvin frá degi síðar og fellur því undir „visvítandi“ ranga skráningu á skorkorti og það þýðir frávísun. Ástæðan fyrir því að meðspilarinn fékk ekki frávísun var sú að hann getur borið því að hafa ekki vitað um regluna, þá er einungis um vítahögg að ræða. 

Margeir Vilhjálmsson í Íslandsmótinu að Jaðri. Myndir/[email protected]

Þurfa að kynna sér reglurnar betur

„Almennt eru kylfingar ekki nærri nógu vel að sér í golfreglunum og þeir eiga líka að kynna sér betur keppnisreglur eða keppnisskilmála sem eru oft öðruvísi af ýmsum ástæðum. Ég þekki reglurnar nokkuð vel og vissi vel um þetta atriði, að ekki mætti pútta á flöt eftir leik. Þetta er í keppnisreglum GSÍ og er víða í útlöndum, m.a.á mótaröðum atvinnumanna. Ég held þó að það sé ljóst eftir þetta mót að það megi líka snerpa á kynningunni á þeim þannig að kylfingar séu ekki að brjóta reglurnar án þess að vita það,“ segir Björgvin sem fékk keppnisrétt á mótaröð eldri kylfinga fyrir tveimur árum og hafði hug á því að keppa í nokkur ár og reyna að ná sér í titil í „eldri deildinni“ líka. Hann segir keppnishald sitt núna í óvissu. Björgvin var þremur höggum á eftir efsta manni fyrir lokahringinn þegar hann „fékk“ frávísunina.