Fréttir

Fljótt skipast veður í lofti hjá Marcus Kinhult
Marcus Kinhult.
Mánudagur 13. maí 2019 kl. 10:00

Fljótt skipast veður í lofti hjá Marcus Kinhult

Lífið er ekki alltaf dans á rósum hjá atvinnukylfingum en það má með sanni segja að stundum breytist það á einu augnabliki.

Marcus Kinhult vann sitt fyrsta mót á Evrópumótaröðinni þegar að hann fagnaði sigri á Betfred British Masters mótinu í gær. Fyrir sigurinn fékk þessi 22 ára gamli Svíi 579.550 evrur sem samsvarar tæpum 80 milljónum íslenskra króna.

Gengi Kinhult hafði hins vegar ekki verið gott það sem af er ári. Fyrir mótið um helgina hafði Kinhult leikið í átta mótum á þessu tímabili á Evrópumótaröðinni. Hann hafði aðeins komist í gegnum niðurskurðinn tvisvar sinnum, unnið sér inn rúmlega 7,5 milljónir íslenskra króna og hann sat í 179. sæti stigalista mótaraðarinnar.

Eftir sigurinn hefur Kinhult aftur á móti unnið sér inn tæplega 90 milljónir króna, hann er kominn í 18. sæti stigalistans en hann hefur aðeins komist í gegnum niðurskurðinn þrisvar sinnum í þeim níu mótum sem hann hefur leikið í.

Hlutirnir geta því breyst ógnarhratt hjá atvinnukylfingum.

Rúnar Arnórsson
runar@vf.is