Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Frábær aðstaða fyrir áhorfendur á Íslandsmótinu á Hvaleyri
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 4. ágúst 2025 kl. 12:00

Frábær aðstaða fyrir áhorfendur á Íslandsmótinu á Hvaleyri

Sérstök áhorfendasvæði (Fanzone) og risaskjáir verða fyrir áhorfendur á Íslandsmótinu í höggleik á Hvaleyri sem fer fram 7.-10. ágúst. Golfklúbburinn Keilir mun útbúa þessi svæði til að gera upplifun áhorfenda sem besta, að erlendri fyrirmynd.  
Við 15. flötina verður komið fyrir risaskjá líkt og tíðkast á stærstu golfmótunum eins og The Open. Skjárinn mun sýna stöðu þess ráshóps sem er að leika 15. brautina hverju sinni auk þess að sýna stöðuna í mótinu í báðum flokkum. Fyrir þá sem kannast við völlinn má benda á að hér er um að ræða gömlu 18. flötina sem nú er 15. flöt eftir breytingar sem gerðar voru á vellinum.  
Einnig verður sérstakt áhorfendasvæði (Fanzone) þar sem áhorfendur geta komið saman, (fyrir utan golfskálann sjálfan.) Tjald sem getur rúmað um 100 manns verður staðsett við 14. flötina. Þar geta áhorfendur fengið sér sæti og notið veitinga en jafnframt fylgst með stöðunni á sjónvarpsskjá. Segja má að tjaldið sé staðsett á miðri Hvaleyrinni. Þar verður einnig salernisaðstaða.  
Allir eru velkomnir á Íslandsmótið í golfi til að fylgjast með landsins bestu og efnilegustu kylfingum, og ekki þarf að greiða aðgangseyri.  
Um 120 sjálfboðaliðar 
Íslandsmótið í golfi er umfangsmikill íþróttaviðburður þar sem keppt er í fjóra daga eða frá fimmtudegi og fram á sunnudag. Slíkt mótshald kallar á mikinn mannskap sem skiljanlegt er.  
Hjá Keili er búist við að um 120 sjálfboðaliðar muni starfa við mótið. Auglýst var eftir sjálfboðaliðum á dögunum og tóku félagsmenn í Keili gífurlega vel í þá beiðni klúbbsins. Enn er að sjálfsögðu pláss fyrir fleiri sem vilja láta gott af sér leiða og um leið vera í návígi við okkar bestu kylfinga takast á við Hvaleyrarvöll, segir í fréttatilkynningu frá Keili.
Örninn 2025
Örninn 2025