Fréttir

Framtíðin spennandi hjá GKG - Agnar fagnar áratug
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 5. október 2022 kl. 13:51

Framtíðin spennandi hjá GKG - Agnar fagnar áratug

„Framtíðin er jafnframt spennandi. Í ljósi þess að Garðabær mun taka hluta af Mýrinnni undir framkvæmdi, þá munum við byggja nýjan og glæsilegan golfvöll sem teygir sig niður að Vífilstaðavatni og áfram upp í Leirdalsopið,“ segir Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar í tilkynningu til kylfinga í klúbbnum en hann fagnar áratugs afmæli í starfi framkvæmdastjóra GKG.

Agnar skautar yfir viðburðarík tíu ár hjá GKG en það er óhætt að segja að grettistak hafi verið unnið í klúbbnum á undanförnum misserum eins og fram kemur í bréfi hans til félaga í GKG.

„Nú eru 10 ár liðin frá því ég tók við framkvæmdastjórastarfi hjá GKG. Þá hvíldi sorg yfir félaginu vegna fráfalls forvera míns Ólafs E. Ólafssonar, blessuð sé minning hans. Ég tók við góðu búi, Ólafi hafði tekist að snúa rekstri klúbbsins við, straumlínu laga reksturinn og greiða niður lán þrátt fyrir erfiða tíma eftirhruns áranna. Með þeim hætti lagði Ólafur grunninn að þeirri uppbyggingu sem við höfum staðið að undanfarin 10 ár.

Sannarlega höfum við náð góðum árangri á flestum vígstöðvum. Vellirnir hafa tekið árlegum framförum og snyrtimennskan er í fyrirrúmi. Leikhraðinn hefur lagast verulega og í stað þess að 4:30 mínútna hringur væri vel að verki staðið fyrir örfáum árum, þá er sá tími með því allra lakasta sem við sjáum í dag. Félagsaðstaðan okkar hefur tekið stakkaskiptum með tilkomu íþróttamiðstöðvarinnar og tókst okkur, þrátt fyrir töluverðar áhyggjur, að flytja með okkur GKG andann úr gömlu Selfoss sjoppuni, hefur hann styrkst frekar en hitt. Við höfum verið frumkvöðlar í okkar starfi,  stækkuðum Íþróttamiðstöðina og rekum nú stærsta TrackMan golfherma svæði veraldar með 22 golfhermum, GKG býður þar af leiðandi félagsmönnum nú upp á heilsárs þjónustu. Íþróttastarfið okkar er í miklum blóma, GKG-ingar raka inn Íslandsmeistaratitlum og gera atlögu að því að komast á mótaraðir þeirra bestu.

Framtíðin er jafnframt spennandi. Í ljósi þess að Garðabær mun taka hluta af Mýrinnni undir framkvæmdi, þá munum við byggja nýjan og glæsilegan golfvöll sem teygir sig niður að Vífilstaðavatni og áfram upp í Leirdalsopið. Ný vélageymsla er algjört forgangsmál, hún er starfsaðstaða 30 aðila á sumrin, búin sérhæfðu verkstæði og hýsir 35 vélknúin tæki. Hún er löngu úr sér gengin og ekki boðlegur vinnustaður lengur. Þá munum við í fyllingu tímans færa 14. braut og 15. braut þannig að upphafshögg af þeirri fyrrnefndu lendi ekki í húsagörðum á fyrirhuguðu byggingarsvæði. Allt framangreint erum við búin að grófhanna, við erum komin með kostnaðaráætlun og tímaáætlun sem spannar næstu sex árin. Eina sem vantar upp á er að sveitafélögin gefi græna ljósið á framkvæmdir og fjármögnun verði tryggð.

Eftir 10 ár getur maður horft stoltur um öxl samhliða því að vera spenntur fyrir komandi árum. Halda áfram að vinna að breytingum til batnaðar á völlunum okkar, byggja nýja vélageymslu, nýjan níu holu golfvöll og nýtt utandyra æfingasvæði sem verður í heimsklassa. Ég er ekki síður spenntur fyrir því að sjá afrakstur íþróttastarfsins okkar og er sannfærður um það að einhver af afrekskylfingunum okkar muni ná inn á stóra sviðið á næstu árum.

Flest árin sem ég hef verið við störf hef ég átt gott samstarf við stjórn, starfsfólk og félagsmenn. Það eru þó tímamót framundan þar sem formaðurinn okkar Guðmundur Oddsson mun láta af formennsku á næsta aðalfundi. Okkar samstarf hefur verið einstakt, byggt á trausti og virðingu og höfum við náð gríðargóðum takti saman. Þetta samstarf er að mínu mati lykilforsenda þeirrar stöðu sem klúbburinn okkar hefur í dag.“

kylfingur.is ræddi við Agnar fyrr á þessu ári þar sem hann fór nánar yfir málin í skemmtilegu viðtali.

Agnar með félögunum Magnúsi Birgissyni og Úlfari Jónssyni í glæsilegri golfherma aðstöðu GKG.