Fréttir

Fyrsta skóflustungan tekin á Akureyri
Gísli Bragi Hjartarson, heiðursfélagi GA tekur fyrstu skóflustunguna.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 28. september 2023 kl. 11:05

Fyrsta skóflustungan tekin á Akureyri

Fjölmargir mættu í gær á Jaðarsvöll á Akureyri síðdegis í gær en þá tók Gísli Bragi Hjartarson, heiðursfélagi GA, fyrstu skólfustunguna af viðbyggingu sem mun rísa vestan við klúbbhúsið og hýsa þar inniaðstöðu GA. Í dag þurfa Akureyringar að spila inni í einum af íþróttahúsum Akureyar en þetta mun gjörbylta inniaðstöðunni.

Boðið var upp á kaffi og kruðerý eftir skóflustunguna en svo fór Steindór Kr. Ragnarsson yfir teikningarnar og hélt tölu: 

„Þetta er virkilega spennandi uppbygging sem margir munu njóta góðs af. Þetta mun gera aðstöðu okkar enn eftirsóknarverðari og sameina allt okkar starf og þjónustu á einum stað. Það er ótrúlega gaman að vinna að þessu fyrir félaga GA og gesti vallarins, eins langar mig að þakka Akureyrarbæ fyrir góðan samning og frábært samstarf. Þessi samningur ber hag beggja aðila og það er alltaf frábært þegar þannig tekst til," sagði Steindór.

Viðbyggingin verður 540 m2 að stærð og verður innangengt í hana úr golfskálanum í gegnum tengibyggingu. Í viðbyggingunni verða 4 golfhermar ásamt 27 holu pútt- og vippsvæði sem er ríflega tvöfalt stærra en í núverandi aðstöðu. Einnig er gert ráð fyrir geymslusvæði í kjallara fyrir vélar og golfbíla klúbbsins. Framkvæmdir munu hefjast strax nú í haust og gert er ráð fyrir að aðstaðan verði opnuð 2024/5, eins og fram kom á heimasíðu GA.

Fjölmargir mættu að Jaðri