Fyrsti sigur ársins hjá besta kylfingi heims
Bandaríkjamaðurinn Scottie Scheffler, efsti kylfingur heimslistans fann loks fjölina aftur og vann með stæl í fyrsta skipti á árinu og það í sínum heimabæ. Scheffler vann með fáheyrðum yfirburðum á CJ Cup Bryon Nelson mótinu á Craig Ranch vellinum í McKinney rétt utan við Dallas í Texas, á PGA mótaröðinni. Kappinn endaði á 31 höggi undir pari og jafnaði mótsmetið.
Hann lék lokahringinn á 8 undir pari, 63 höggum og var sjóðheitur í öllu mótinu.
„Það er magnað að vinna hér á þessu golfvelli og í þessu móti. Við eigum margar góðar miningar frá því að alast upp hér í nágrenninu og fylgjast með Byron Nelson mótinu. Mig dreymdi alltaf um að vinna það og ég lék á mínu fyrsta PGA móti á þessum velli,“ sagði Scheffler eftir sigurinn.