Fréttir

Fyrsti sigur Herbert staðreynd
Lucas Herbert. Mynd: Getty Images.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 26. janúar 2020 kl. 17:40

Fyrsti sigur Herbert staðreynd

Ástralinn Lucas Herbert sigraði í dag í fyrsta skiptið á Evrópumótaröð karla eftir bráðabana gegn Christiaan Bezuidenhout á Omega Dubai Desert Classic.

Herbert og Bezuidenhout enduðu báðir mótið á 9 höggum undir pari en Kínverjinn Ashun Wu, sem leiddi eftir þrjá hringi, endaði jafn í 6. sæti á 7 höggum undir pari.

Í bráðabananum héldu Herbert og Bezuidenhout á 18. holu Emirates vallarins sem er par 5 hola. Mikil dramatík var í fyrstu tilraun þegar Herbert sló í vatnið í öðru höggi sínu en bjargaði samt sem áður pari og því héldu þeir aftur upp á teig.

Í annarri tilraun fékk Herbert svo fugl sem dugði til sigurs og hans fyrsti sigur á Evrópumótaröð karla staðreynd.

„Mér líður eins og mig hafi verið að dreyma síðustu 10 mínúturnar,“ sagði Herbert eftir sigurinn. „Þetta er svo skrítið, svo frábært. Það besta í heimi. Ég er með flösku af Scotch heima til að fagna þannig ég get ekki beðið eftir að komast í hana með strákunum.“

Englendingurinn Tom Lewis, Spánverjinn Adri Arnaus og Suður-Afríkubúinn Dean Burmester deildu þriðja sætinu á 7 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.