Fréttir

Gerði jafntefli við McIlroy
Sigmundur Einar Másson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 6. nóvember 2019 kl. 09:28

Gerði jafntefli við McIlroy

Rory McIlroy nálgast Brooks Koepka í efsta sæti heimslistans eftir sigurinn um helgina á HSBC heimsmótinu sem fór fram í Kína. Þeir Þórður Rafn Gissurarson og Sigmundur Einar Másson ræddu um sigur McIlroy í hljóðvarpi þeirra, Golfkastið, og minntist Sigmundur þar á hans fyrstu kynni af McIlroy.

Sigmundur mætti nefnilega McIlroy þegar sá síðarnefndi var 16 ára en hann var þá strax orðinn þekktur í golfheiminum enda gríðarlega mikið efni.

„Ísland spilaði á Evrópumótinu í Hillside 2005. Þar spiluðum við gegn Írlandi og ég fékk að keppa á móti Rory McIlroy á þessum tíma og leikar fóru jafnir," sagði Sigmundur.

Þórður spurði þá Sigmund hvort hann hafi ekki verið ósáttur hafa ekki náð að vinna hann. „Ég var brjálaður að fá ekki að fara í bráðabana. Írland var búið að vinna leikinn 3-1 og mig minnir að við höfum verið síðasti leikurinn. 

Ég átti eina þegar tvær holur voru eftir. Hann vann 17. holu , par 5 holu, fór inn á í tveimur höggum úr rugl stöðu og fékk fugl. Ég vonaðist eftir að hann myndi halda áfram en liðsstjórarnir stoppuðu þetta," sagði Sigmundur og bætti svo við að hann hefði unnið hinn unga McIlroy í höggleiknum tveimur dögum fyrr.

Sigmundur hefur undanfarin ár reynt að minna McIlroy á Evrópumótið en ekki enn náð til hans.

„Ég reyni alltaf að fá einhver „retweet" á þetta þegar Boladagurinn fer fram. Ég held að ég hafi reynt á hverju ári að fá hann til að „retweet-a" þessu en hann er greinilega ekki að sjá um Twitter aðganginn sinn því hann myndi pottþétt gera það."


Leikur íslenska liðsins gegn Írum í Evrópumótinu árið 2005.