Fréttir

Góður dagur hjá íslensku strákunum á breska áhugamannamótinu
Aron Snær Júlíusson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 15. júní 2021 kl. 18:32

Góður dagur hjá íslensku strákunum á breska áhugamannamótinu

Annar dagur breska áhugamannamótsins var leikinn í dag og reyndist dagurinn góður íslensku kylfingunum. Eftir daginn er ljóst að fimm Íslendingar af þeim sex sem hófu leik komast áfram í holukeppnina sem hefst á morgun.

Íslensku kylfingarnir sem hófu leik voru þeir Aron Snær Júlíusson, Dagbjartur Sigurbrandsson, Hákon Örn Magnússon, Hlynur Bergsson, Kristófer Karl Karlsson og Sigurður Arnar Garðarsson.

Aron lék frábært golf í dag og átti hann næstbesta hring dagsins. Hann var í erfiðari stöðu fyrir daginn á samtals sex höggum yfir pari en frábær hringur upp á 65 högg kom honum aftur á parið. Hann bætti sig því um 12 högg milli daga. Dagbjartur endaði einnig á parinu eftir hring upp á 69 högg í dag. Hann fékk fjóra fugla á hringnum í dag og tapaði tveimur höggum.

Hlynur lék einnig undir pari í dag en hann kom í hús á 70 höggum, eða höggi undir pari. Hann lék því samtals á tveimur höggum yfir pari.

Sigurður Arnar lék á 71 höggum í dag og hringur upp á 74 högg í gær þýðir að hann endaði hringina tvo á þremur höggum yfir pari. Kristófer Karl lék einnig á 71 höggi í dag og endaði hann hringina tvo á fjórum höggum yfir pari.

Hákon Örn barðist vel á hringnum í dag. Hann var í mjög erfiðari stöðu eftir fyrri níu holurnar sem hann lék á þremur höggum yfir pari. Hann náði sér í fjóra fugla á síðari níu holunum en fékk tvo skolla á móti. Daginn endaði hann á 72 höggum og endaði hann á að vera tveimur höggum frá því að komast í umspil um sæti í 64 manna úrslitum sem hefjast á morgun.

Hérna verður hægt að fylgjast með gangi mála hjá okkar mönnum á morgun.