Fréttir

Golf á besta vellinum á Tene
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 28. september 2023 kl. 16:20

Golf á besta vellinum á Tene

Þægilegt veðurfar á Tenerife allt árið um kring er freistandi fyrir kylfinga en eyjan hefur verið mjög vinsæll sólar áfangastaður hjá Íslendingum. 

Níu golfvellir eru á Tenerife og eru flestir staðsettir á suðvestur hluta eyjunnar. Þar af leiðandi eru vellir þar mest sóttir og þar ber helst að nefna Costa Adeje, Las Américas og Golf del Sur. Þessir þrír vellir eru allir skemmtilegir og góðir. Tveir bestu vellirnir á Tenerife eru þó Buenavista Golf og Abama Golf en við báða þessa velli eru hótel í göngufæri, - þetta eru einu golf-rísortin á Tene. 

Við Abama völlinn er Ritz Carlton hótel, fimm stjörnu dæmi og glæsilegar aðstæður. Ritstjóri kylfings.is lék völlinn fyrir nokkrum árum og það er engin spurning að hann fer efst á lista yfir bestu velli eyjunnar. En Abama er þar ekki einn. Hann keppir við Buenavista golfvöllinn sem við setjum í efsta sætið. Frábær golfvöllur og allar aðstæður fimm stjörnu.

Bueanavista er í norðvesturhluta eyjunnar og fimm stjörnu hótelið Melia Hacienda Del Conde. 

Á því er skemmtilegur golfvöllur hannaður af meistaranum Severiano Ballesteros. Það er ljóst að Seve hefur notið sín við hönnun Buenavista vallarins en hann er í skemmtilegu samneyti fjalla, strandlengjunnar og Atlantshafsins. Seve var mikill aðdáandi strandvalla í Bretlandi en sjórinn og strandlengjan koma við sögu við margar brautir á Buenavista að ógleymdri fjallasýninni. 

Völlurinn er 18 hour par 72 og er rúmir sex þúsund metrar að lengd. Á honum eru sex holur par 3, par 4 og par 5. Brautirnar við sjóinn á seinni níu holunum eru flottastar, t.d. 16. og 17. hola.

Klúbbhúsið er staðsett fyrir miðju vallarins og á hæsta punkti við golfvöllinn. Þar er góður veitingastaður og bar með útsýni yfir hluta vallarins og Atlantshafið. Í klúbbhúsinu er góð verslun og svo eru auðvitað hægt að fá leigðar golfkerrur og að sjálfsögðu golfbíla. Völlurinn er nokkuð hæðóttur og því líklegt að flestir nýti sér þá. Þó ekki þannig að það sé ekki hægt að ganga hann. Æfingasvæðið er flott þar sem slegið er í átt að fjallgarðinum. 

Maður fær virkilega „wow“ upplifun eftir að hafa leikið golfvöllinn og síða kemur annað „wow“ þegar komið er inn á hótelið og í gistinguna. Hacienda del Conde, Meliá Collection er glæsilegt 5 stjörnu hótel. Herbergin eru rúmgóðar svítur, 40m2 og búnar öllum helstu þægindum, fataherbergi, loftkælingu, minibar og stóru sjónvarpi. Það er huggulegt að setjast út á svalir með drykk og njóta útsýnisins út á golfvöllinn. 

Tveir veitingastaðir eru á svæðinu. Í boði er hlaðborð sem er sérlega veglegt en einnig „a la carte“. Við prófuðum bæði og fengum frábæran mat og drykki.

Í sundlaugargarðinum eru tvær upphitaðar sundlaugar. Andrúmsloftið þar er mjög rólegt og því er mjög huggulegt að liggja þar í sólinni og njóta lífsins fyrir eða eftir golf. 

Heilsuræktin er stór og glæsileg. Þar er hægt að fara í gufubað og heita potta og ef einhverjir vilja komast í ræktina þá er það í boði. Einnig heilsumeðferðir.

Á heimasíðu GB ferða er sagt frá því að þegar komið er á hótelsvæðið sem er í litlu þorpi komi upp James Bond fílingur. Það er hægt að taka undir það. Allt frekar rólegt og móttökurnar eru faglegar á fimm stjörnu svæði.  Buena Vista Golf – Hacienda del Conde, Meliá Collection stendur svo sannarlega undir fimm stjörnunum. Þetta er klassa staður og þess virði að keyra í klukkutíma frá flugvellinum. Útsýnið á leiðinni er flott þegar ekið er í gegnum Teno fjöllin í norðurhlutanum á eyjunni. 

Niðurstaðan: Glæsilegasta golfsvæðið á Tenerife.

Seve Ballesteros hefur notið sín að hanna þennan golfvöll.

Margar brautir á seinni níu holunum eru alveg við sjóinn. 

Útsýnið úr veitingasalnum í klúbbhúsinu er yfir hluta vallarins og út á Atlantshafið. Ekki leiðinlegt að tylla sér eftir hring.

Íslendingar elska golfverslanir þegar þeir eru í útlöndum. 

Herbergin eru stór og glæsileg enda svítur. 

Sundlaugargarðurinn og allt útisvæðið er í topp klassa.

Ótrúlega grænt grasið heillaði ljósmyndara kylfings.