Fréttir

Golfklúbbur Hornafjarðar skartar einum fegursta golfvelli landsins
Silfurnesvöllur er einstaklega fallegur golfvöllur og fjallaútsýnið í baksýn oft á tíðum stórbrotið
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 17. október 2023 kl. 14:16

Golfklúbbur Hornafjarðar skartar einum fegursta golfvelli landsins

Þröngt á þingi fyrstu árin

Golfklúbbur Hornafjarðar var stofnaður árið 1971 og hefur völlurinn þeirra, Silfurnesvöllur alltaf verið níu holu golfvöllur og er forsvarsfólk klúbbsins ekki með pælingar um stækkun. Fyrstu starfsár klúbbsins var níu holu völlurinn þeirra mun minni en hann er í dag, það fékkst ekki strax meira landsvæði undir hann. Kylfingur spilaði völlinn í lok ágúst og heillaðist algerlega, grínin voru þau bestu sem hann hafði púttað á, á Íslandi og öll umhirða hin besta.

Halldóra K. Guðmundsdóttir er nýlega tekin við sem formaður klúbbsins en þar áður hafði hún verið í stjórn. „Klúbburinn fagnaði 50 ára afmæli fyrir tveimur árum, var stofnaður 16. október árið 1971 en golfiðkun hófst samt ekki fyrr en árið eftir. Fenginn var golfkennari til að kenna tvo daga í viku en það vildi svo illa til að veðrið var óhagstætt þegar fyrsta æfingin fór fram svo hún var færð inn í húsnæði veiðarfæragerðarinnar. Fyrsta golfmótið var haldið dagana 26-27. júlí árið 1972. Til marks um verðlagsbreytingarnar, fyrsta árgjald klúbbsins var 4.000 kr og mjög fljótlega var stofnuð kvennadeild innan klúbbsins. Fjöldinn jókst hægt og bítandi og í dag eru tæpir 160 meðlimir í klúbbnum. Ég hef lengi verið í allskyns félagsstörfum og sóttist í raun eftir því að komast í stjórn golfklúbbsins, ég var fyrst meðstjórnandi og sat og sit enn í nefndinni sem fór með endurbætur á klúbbhúsinu, síðan tók ég við formennskunni á síðasta aðalfundi. Ég tók við góðu búi, aðhalds hefur alltaf verið gætt og það var ekki fyrr en á síðasta golfsumri sem við gátum bætt við okkur vallarstarfsmanni en við höfðum fram að því aðeins haft einn launaðan starfsmann. Allt starf fyrir utan sláttinn hefur því verið unnið í sjálfboðavinnu fram að þessu. En það er í mörg horn að líta í stækkandi klúbbi og þá er maður svo heppinn að hafa gott fólk með sér eins og félaga mína í stjórninni og okkar afar öfluga formann mótanefndar, Jónu Benný Kristjánsdóttur og þá sem með henni vinna.“

Golfklúbbur Hornafjarðar naut góðs af COVID þegar landinn gat ekki ferðast til útlanda, margar heimsóknir golfara á þeim árum og náðist að safna smá pening. „Við gátum ráðist í endurbætur á golfskálanum, tókum hann í raun alveg í gegn og núna erum við að vinna í að opna inniaðstöðu fyrir golfhermi. Golfarar gátu geymt settin sín þar en nú erum við komin með gám fyrir utan golfskálann sem Skinney Þinganes styrkti okkur um, þar geta golfarar geymt settin sín. Ég er vel gift, Benedikt Gunnarsson maðurinn minn tók að sér að gera gáminn að húsi og er núna að leggja lokahönd á verkið. Hann er reyndar ekki í golfklúbbnum og spilar ekki einu sinni golf en tók þetta að sér í sjálboðavinnu, fékk einnig hjálp frá fleiri aðilum utan klúbbsins. Það gengur oftast vel að fá sjálfboðaliða til að vinna þau verk sem þarf að vinna og auðvitað byggist svona félagsskapur mest megnis á sjálfboðastarfi en það má þó ekki gleyma því að við njótum velvildar víða í samfélaginum og fyrirtæki oft tilbúin að vinna fyrir okkur hin ýmsu verk án þess að rukka fyrir auk beinna peningastyrkja bæði frá fyrirtækjum og sveitarfélaginu. Við ákváðum fyrir nokkrum árum að bjóða rekstur golfskálans út, viðkomandi fær afraksturinn en er með viðveru í staðinn til að rukka flatargjöldin.“ 

Hornfirðingarnir eru nokkuð duglegir að halda mót. Eins og svo margir klúbbar eru þeir með sína stigamótaröð, Glacier Journey mótaröðin sem spiluð er á fimmtudögum. Ýmiss opin mót eru yfir sumarið, t.d. Humarhátíðarmótið sem Skinney Þinganes styrkir og eitt af fyrstu mótum sumarsins er minningarmótið.  „Sonur okkar, Gunnar Hersir fórst árið 2013, hann var golfari og spilaði t.d mikið með Guðbjörgu systur minni sem er formaður Golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði og Jóni Inga manninum hennar en þau áttu síðan frumkvæðið að því að setja þetta minningarmót um hann á laggirnar og var fyrsta mótið haldið strax árið 2014 og var því haldið í tíunda sinn nú í sumar. Fyrstu árin styrktum við mismunandi aðila en undanfarin ár hefur ágóðinn runnið í barna- og unglingastarf í klúbbnum  Það hefur í gegnum tíðina ekki verið nógu öflugt en við erum að bæta úr því. Þetta var eitt af því fyrsta sem ég reyndi að koma af stað þegar ég gekk inn í stjórn, það þurfti að bæta starfið fyrir börn og unglinga. Við viljum vera með markvissari kennslu og höfum við notið krafta Halldórs Steinars Kristjánssonar og nú í sumar einnig Erlu Þórhalls konu hans. Halldór Steinar hefur unnið gott starf í þessum málum, hann er mikill golfari sjálfur auk þess sem hann er íþróttakennari að mennt. Auðvitað væri frábært ef hann eða einhver búandi hér á staðnum, gæti náð sér í PGA kennsluréttindi. Þar með yrði kominn miklu stærri gæðastimpill á allt starf klúbbsins en svona kennari nýtist ekki bara börnum og unglingum, fullorðna fólkið mun njóta góðs af því líka, ekki síst ég formaður klúbbsins.

Hvað golfið og spilamennskuna varðar þá spila ég mest  golf með golffélögum mínum til margra ára, þeim Halldóru Bergljótu og Ingu Kristínu en þær eru líka í stjórn klúbbsins með mér. Ég get nú ekki skreytt mig með miklum afrekum á golfvellinum og eyði stundum meiri tíma í að sinna félagsstörfum innan golfklúbbsins heldur en að spila. Auðvitað vill maður bæta sig, ég var komin niður í 34 í forgjöf en er búin að hækka aftur og er komin aftur upp í tæpa 40. Ég held ég verði seint valin í liðið í sveitakeppninni en ég fékk þó að keppa í sveitakeppni 50 ára og eldri í sumar,“ sagði Halldóra.

Albert Eymundsson var einn stofnmeðlima, hann rifjaði upp bernskubrek klúbbsins. „Ég er eini stofnmeðlimurinn á fundinum sem er enn á lífi. Þetta voru nokkrir áhrifamenn innan bæjarfélagsins sem stofnuðu klúbbinn, t.d. bankastjórinn, vegagerðarstjórinn, skólastjórinn, læknirinn, hótelstjórinn o.s.frv. Landsvæðið sem var notað undir völlinn, var allt í eigu sveitarfélagsins en bændur  leigðu undir heyskap. Við gátum fengið hluta þess lands og nutum velvildar bóndanna. Gæðin á vellinum voru nú líklega ekki mikil til að byrja með og grínin voru ansi lengi að taka við sér en með tíð og tíma kom það. Það var mikil framför hjá okkur árið 2003 þegar við gátum stækkað völlinn en þá gætu margir haldið að holunum hefði fjölgað úr níu í eitthvað meira en það er ekki málið, völlurinn hafði verið níu holur en svo fengum við meira landsvæði og þá breyttust þessar níu holur einfaldlega, brautirnar lengdust. Við gerðum grínin á þessum hluta vallarins frá grunni svo þau voru fljót að taka við sér og það er gaman að heyra frá öllum sem koma til okkar og spila völlinn, grínin fá öll bestu einkunn. Klúbburinn naut góðs af því að Þorvaldur Ásgeirsson sem talinn er fyrsti golfkennarinn á Íslandi og aðstoðaði marga klúbba við hönnun á sínum golfvöllum, var okkur innan handar. Við lærðum mikið af honum en hann mátti ekki keppa, hann taldist til atvinnumanna á þeim tíma. Eins og ég minntist á, þetta voru flottir menn sem voru í klúbbnum á fyrstu árunum og m.a. flottir iðnaðarmenn, t.d. Gunnlaugur Þröstur Höskuldsson smiður og Björn Gíslason rafvirkjameistari. Þeir stýrðu vinnu við golfskálann hjá okkur og náðum við nánast að byggja hann allan í sjálfboðavinnu en fyrst studdumst við við vegavinnuskúr sem klúbbhús. Þegar rekstur klúbbsins hófst er mér minnisstætt hvað forsvarsmenn voru hófsamir þegar þeir voru að biðja um styrki. Ég var ekki orðinn bæjarstjóri á þeim tíma sem sveitarfélagið fór að styðja við klúbbinn fjárhagslega en ég var í bæjarstjórn. Óskir golfklúbbsins um fjárstuðning voru svo hógværar, að við létum hann fá tvöfalda þá upphæð sem þeir óskuðu eftir.

Ég get því miður ekki lengur spilað golf, hnéin eru bæði ónýt og axlirnar ekki góðar en ég spilaði talsvert hér áður fyrr og þó svo að völlurinn hafi auðvitað orðið betri þegar hann stækkaði, fannst mér einkar hentugt að geta skotist níu holur fyrir vinnu á morgnana, það tók ekki langan tíma að tölta þessar holur,“ sagði Albert.

Fáum dettur í hug að þetta sé gámur
Mynd tekin inni í gámnum

Klúbbhús Hornfirðinganna þar sem þeir munu brátt spila golf í hermi
Einn stofnmeðlima Golfklúbbs Hornafjarðar, Albert Eymundsson