Fréttir

Golfsambandið fékk úthlutað tæplega 36 milljónum úr afrekssjóði ÍSÍ
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 11. febrúar 2020 kl. 10:11

Golfsambandið fékk úthlutað tæplega 36 milljónum úr afrekssjóði ÍSÍ

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur samþykkt tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ að úthlutun fyrir árið 2020, en styrkveitingar ÍSÍ til sambandsaðila nema tæplega 462 milljónum króna.

Hæsta styrkinn hlaut Handknattleikssamband Íslands eða 58,3 milljónir króna en því næst kom Fimleikasamband Íslands með 52,8 m.kr. Golfsamband Íslands fékk fjórða hæsta styrkinn eða 35,9 m.kr.

Til Afrekssjóðs ÍSÍ bárust að þessu sinni umsóknir frá 30 sérsamböndum. Öll sérsamböndin hlutu styrk vegna sinna landsliðsverkefna, þótt um misháar upphæðir hafi verið að ræða.

Þrátt fyrir að úthlutað sé að þessu sinni tæplega 462 milljónum króna, sem er svipuð upphæð og á síðasta ári, er enn töluvert í að styrkir ÍSÍ standi undir öllu afreksíþróttastarfi sérsambanda. Heildarkostnaður afreksíþróttastarfs hjá þeim sérsamböndum sem sóttu um til Afrekssjóðs ÍSÍ vegna ársins 2020 nema um 1.563 m.kr. og er stuðningur sjóðsins því að meðaltali tæplega 30% af þörf sérsambanda, en þess má þó geta að árið 2016 var hlutfallið um 11%.


Mynd: ÍSÍ.

Hlutfall á milli afreksflokka hefur einnig tekið breytingum en hafa ber í huga að á árinu 2019 voru gerðar tvær breytingar á flokkun sérsambanda í flokka, þ.e. Skíðasamband Íslands var fært úr B-flokki í A-flokk og Landssamband hestamannafélaga var fært úr C-flokki í B-flokk. Þá hafa þrjú sérsambönd sótt um styrki í fyrsta skipti til sjóðsins, þ.e. fyrir verkefni ársins 2020. Aukinn fjöldi sérsambanda og færslur á milli flokka hafa áhrif á úthlutun til annarra og þótt að slíkt hafi átt sér stað áður þá gerði aukning á framlagi ríkisins til sjóðsins mögulegt að bregðast við slíkum breytingum án þess að það þyrfti að koma til lækkunar á styrkveitingum til einstakra sérsambanda. Fyrir árið 2020 er ljóst að fjölmörg sérsambönd lækka í upphæðum á milli ára og eru það helst sérsambönd sem voru með töluvert minna umfang á árinu 2019 í samanburði við komandi ár sem hækka á milli ára.

Í reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ er fjallað um kröfur um afreksstefnur sérsambanda sem uppfylla viðmið ÍSÍ. Þannig er lögð áhersla á að öll sérsambönd móti sér stefnu í afreksíþróttum sem hljóti umfjöllun og samþykki á sérsambandsþingi. Mismunandi kröfur eru þó gerðar til sérsambanda eftir afreksflokkum þeirra. 

Vonir standa til þess að frekari styrkjum verði úthlutað á árinu 2020 og mun stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ fylgjast náið með framvindu og árangri. Er þar m.a. verið að horfa til Ólympíuleika í Tókýó 2020 og þeirra sambanda og íþróttamanna sem stefna að þátttöku á leikunum og eiga þess kost að vinna sér inn keppnisrétt.


Mynd: ÍSÍ.