Fréttir

Gott ár hjá hárprúða Þjóðverjanum
Marcel Siem er búinn að eiga gott ár. Mynd/golfsupport.nl
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 16. október 2023 kl. 11:25

Gott ár hjá hárprúða Þjóðverjanum

Þjóðverjinn Marcel Siem þurfti að hafa fyrir því að vinna sér aftur þátttökurétt á DP Evrópumótaröðinni fyrir tæpu ári síðan en gengi hans þar á þessari keppnistíð hefur verið mjög gott. Hann hefur sigrað á einu móti, verið ofarlega nokkrum sinnum og var í toppbaráttunni á Opna spænska mótinu í Madríd um helgina. 

Siem lék lokahringinn í Madrid á 61 höggi, tíu undir pari, og gældi við að klára á 59 höggum. Það vantaði tvo fugla í lokin í besta hring hans á ferlinum og hann endaði jafn í 4. sæti í mótinu. 

Siem er 43 ára en hann sigraði á móti í Indlandi fyrr á árinu þar sem okkar maður, Guðmundur, var í 2. sæti eftir 36 holur. Þjóðverjinn hefur leikið gott golf á árinu og er í 18. sæti á stigalistnum, Race to Dubai og hefur rakað inn um 150 milljónum króna á keppnistíðinni. Á tuttugu árum sem atvinnumaður nemur heildar verðlaunafé hans um 1500 milljónum króna. Hann missti þátttökuréttinn á DP Evrópumótaröðinni eftir keppnistíðina 2022 þurfti því að fara í lokaúrtökumótið í lok árs. Hann lék á Áskorendamótaröðinni 2020 og 2021 en einnig í upphafi ferilsins 2001 og 2002.

Siem þykir líflegur persónuleiki og er jafnan með snúð í hárinu. Þjóðverjinn var einn hringinn í ráshópi með okkar manni, Guðmundi Ágústi Kristjánssyni í lokaúrtökumótinu í lok árs 2022.