Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Guðmundur 18 holum frá keppnisrétti á Áskorendamótaröðinni
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 11. júlí 2019 kl. 17:39

Guðmundur 18 holum frá keppnisrétti á Áskorendamótaröðinni

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, er með þriggja högga forystu fyrir lokahringinn á Svea Leasing Open mótinu sem fer fram á Nordic Golf mótaröðinni.

Guðmundur hefur leikið fyrstu tvo hringi mótsins á 11 höggum undir pari og er þremur höggum á undan Charlie Jerner sem er annar.

Alls hefur Guðmundur fengið 12 fugla, einn örn og einungis þrjá skolla í mótinu til þessa og leikið frábært golf. Guðmundur fékk örninn á lokaholu annars hringsins og kom sér þannig í góða stöðu fyrir morgundaginn þegar lokahringur mótsins fer fram.

Líkt og Kylfingur hefur greint frá fyrr á þessu tímabili fá þeir kylfingar sem sigra þrisvar á einu tímabili á Nordic Golf mótaröðinni þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni sem er næst sterkasta mótaröð Evrópu. Færi svo að Guðmundur myndi sigra á morgun fengi hann því sjálfkrafa þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni frá og með morgundeginum og út næsta keppnistímabil þar sem hann er búinn að vinna tvö mót nú þegar.

Auk Guðmundar eru þeir Aron Bergsson, Haraldur Franklín Magnús, Axel Bóasson og Andri Þór Björnsson með í mótinu. Aron komst í gegnum niðurskurðinn í dag eftir glæsilegan hring (67 högg) en hinir þrír eru úr leik. Haraldur og Axel voru höggi frá því að komast áfram en Andri 7 höggum frá því.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.