Fréttir

Guðmundur efstur í Danmörku
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 5. júní 2019 kl. 10:52

Guðmundur efstur í Danmörku

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, fór vel af stað á Thisted Forsikring Championship mótinu sem hófst í dag, miðvikudag, á Nordic Golf mótaröðinni og er efstur þegar um helmingur kylfinga hefur lokið leik á fyrsta hring.

Guðmundur, sem hefur nú þegar sigrað á einu móti á tímabilinu, lék fyrsta hring mótsins á 4 höggum undir pari og er jafn Anders Emil Ejlersen frá Noregi í efsta sæti.

Hringurinn byrjaði þó ekki vel fyrir Guðmund sem fékk tvöfaldan skolla á 2. holu. Eftir það lék hann næstu 16 holur á 6 höggum undir pari og fékk meðal annars fjóra fugla á holum 10-14.

Auk Guðmundar eru þeir Axel Bóasson, GK, og Haraldur Franklín Magnús, GR, meðal keppenda í mótinu. Axel er búinn með fyrsta hringinn og lék á 7 höggum yfir pari en Haraldur er einungis búinn með þrjár holur á fyrsta hringnum og er á parinu. Greint verður frá skori Haraldar þegar hann klárar sinn hring seinna í dag.

Leiknir eru þrír hringir í mótinu sem fer fram hjá golfklúbbi Álaborgar. Lokahringur mótsins fer fram á föstudaginn.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.