Fréttir

Guðmundur endaði í 16. sæti á lokamóti Áskorendamótaraðarinnar
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 22. nóvember 2020 kl. 17:10

Guðmundur endaði í 16. sæti á lokamóti Áskorendamótaraðarinnar

Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR endaði í 16. sæti á lokamóti Áskorendamótaraðarinnar sem fór fram á Majorka um helgina. Guðmundur lék hringina fjóra samtals á 3 höggum undir pari og varð átta höggum á eftir Ondrej Lieser sem sigraði á mótinu og varð um leið stigameistari.

Fyrir lokahringinn var Guðmundur á 3 höggum undir pari en hann lék lokahringinn á pari vallarins eftir fjóra fugla og fjóra skolla og endaði því á 3 höggum undir pari. Eftir mótið varð það ljóst að Guðmundur mun enda tímabilið í 46. sæti á stigalistanum sem er næst besti árangur Íslendings á Áskorendamótaröðinni. Besti árangur Íslendings er 35. sæti en Birgir Leifur Hafþórsson náði þeim árangri árið 2017 eftir að hafa endað í 37. sæti á lokamótinu.

Alls spilaði Guðmundur á 11 mótum á tímabilinu og endaði best í 5. sæti á Northern Ireland Open mótinu sem fór fram í september. Á næsta ári verður hann áfram með fullan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni en reikna má með því að hann fái boð í nokkur mót á Evrópumótaröðinni líkt og undanfarin ár.

Árangur Guðmundar á tímabilinu 2020 á Áskorendamótaröðinni:

  • 11 mót
  • 5x í gegnum niðurskurðinn
  • 1 topp 10
  • Meðalskor: 72,17 högg
  • Verðlaunafé: 21.405 evrur

Hér er hægt að sjá úrslit mótsins.