Fréttir

Guðmundur í fjórða sæti fyrir lokadaginn
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 5. september 2020 kl. 12:29

Guðmundur í fjórða sæti fyrir lokadaginn

Guðmundur Ágúst Kristjánsson atvinnukylfingur úr GR er í fjórða sæti fyrir lokadaginn á Northern Ireland Open mótinu sem fram fer á Áskorendamótaröðinni. Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús léku báðir á pari vallar í dag og eru rétt fyrir neðan miðjan hóp.

Fyrir daginn var Guðmundur í öðru sæti á samtals fimm höggum undir pari. Hann hafði hægt um sig í dag og náði einungis í tvo fugla en fyrir daginn hafði hann fengið 11 fugla. Hann tapaði þó aðeins einu höggi og kom því í hús á 69 höggum eða höggi undir pari. Fyrir lokahringinn er Guðmundur samtals á sex höggum undir pari, fjórum höggum á eftir efsta manni sem lék á 62 höggum í dag.

Besti árangur Guðmundar á Áskorendamótaröðinni til þessa er 9. sæti en hann náði því á Stone Irish Challenge mótinu í fyrra.

Andri Þór er samtals á tveimur höggum yfir pari fyrir lokdaginn og jafn í 46. sæti. Hringurinn í dag hjá Andra var afar skrautlegur en hann fékk sex fugla en á móti fékk hann tvo skolla og tvo skramba.

Haraldur lék líkt og Andri Þór á 70 höggum í dag eða pari vallar. Hann var þó nokkuð stöðugri og fékk aðeins einn fugl og einn skolla. Fyrir lokdaginn er hann jafn í 49. sæti á þremur höggum yfir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Andri Þór Björnsson.


Haraldur Franklín Magnús.