Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Guðmundur komst inn á lokamót Áskorendamótaraðarinnar
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 16. nóvember 2020 kl. 18:07

Guðmundur komst inn á lokamót Áskorendamótaraðarinnar

Lokamót Áskorendamótaraðarinnar í golfi fer fram á T-Golf & Country Club á Majorka dagana 19.-22. nóvember næstkomandi. Einn Íslendingur er á meðal þeirra 45 sem spila um 350.000 evrur sem og þátttökurétt á Evrópumótaröð karla.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR komst inn í mótið en hann var í 46. sæti á stigalista mótaraðarinnar og þurfti því einungis að treysta á að einn kylfingur myndi afboða þátttöku sína sem svo gerðist.

Örninn 2025
Örninn 2025

Allir 45 kylfingar mótsins munu spila fjóra hringi og verður því ekki niðurskurður eftir tvo hringi eins og venjan er á mótaröðinni. Undanfarin ár hafa 15-20 efstu kylfingarnir á mótaröðinni fengið þátttökurétt á Evrópumótaröðinni að fjórum hringjum loknum en svo verður ekki í ár.

Þess í stað fá einungis fimm efstu kylfingarnir á peningalistanum takmarkaðan þátttökurétt en þetta staðfesti Guðmundur í samtali við blaðamann Kylfings.

„Venjulega væri ég kominn með takmarkaðan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni bara fyrir það að hafa komist hingað en það eru víst fimm sæti í boði fyrir þá sem enda efstir á peningalistanum,“ sagði Guðmundur og bætti við að í vor hefði verið ákveðið að allir myndu halda sínum þátttökurétti á Áskorendamótaröðinni út 2021 sama hvernig þetta ár færi.

Þetta er aðeins í annað skiptið sem íslenskur kylfingur kemst inn á lokamót Áskorendamótaraðarinnar en áður hafði Birgir Leifur Hafþórsson afrekað það þegar hann endaði í 37. sæti á stigalistanum.

Haraldur Franklín Magnús hefur einnig verið með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni í ár en hann komst ekki inn í lokamótið þar sem hann var í 85. sæti á stigalistanum eftir mót síðustu viku.

Hér er hægt að sjá keppendalista mótsins á Majorka.