Fréttir

Guðrún ánægð með spilamennskuna og tilbúin í lokaúrtökumótið
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 15. desember 2023 kl. 16:57

Guðrún ánægð með spilamennskuna og tilbúin í lokaúrtökumótið

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili lék frábært golf þegar mest reið á í fyrra úrtökumóti fyrir LET Evrópumótaröð kvenna í fyrradag. Hún hefur leik ásamt Ragnhildi Kristinsdóttur á lokaúrtökumótinu í Marrakesh á morgun, laugardag.

Guðrún lék fyrsta hringinn í fyrra mótinu mjög vel og var á þremur undir pari. Annar hringurinn var hins vegar erfiður, +5 og hún þurfti því frábæran lokahring til að ná áfram. Það gerði hún og heldur betur því hún lék lokahringinn á 66 höggum, sex undir pari og endaði í 13. sæti. Hún lék á öðrum golfvelli en Ragnhildur.

„Já, þessi lokahringur var frábær. Ég var bara í algjöru flæði og gerði allt vel frá púttum yfir í upphafshögg með drævernum. Ég var bara virkilega ánægð að hafa snúið þessu við eftir erfiðan dag 2. Fyrir utan að spila illa þá lenti ég í mjög leiðinlegu en síðar fyndnu atviki þar sem ég læstist inni á klósetti úti á golfvelli eftir 5 holur á 2 hring og komst ekki út. Það leystist síðan sem betur fer. Ég notaði tvö tí og klemmdi saman lásinn. Þannig náði ég að komast út...“

En hvernig leggst lokamótið í þig?

„Það leggst vel í mig. Það var mikil vítamínssprauta að ná svona góðum lokahring og spila svona vel undir pressu á seinasta degi.“