Fréttir

Guðrún Brá bjartsýn á að árið verði nokkuð „venjulegt“
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 20. janúar 2021 kl. 22:22

Guðrún Brá bjartsýn á að árið verði nokkuð „venjulegt“

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbinum Keili, lauk sínu fyrsta fulla ári á Evrópumótaröð kvenna (LET) á síðasta ári. Hún náði ágætis árangri en árið var engu að síður öðruvísi en hún hafði lagt upp með. Líkt og hjá mörgum íþróttamönnum og fólki um allan heim hafði kórónuveirufaraldurinn sitt að segja.

Blaðamaður kylfings heyrði í Guðrúnu Brá á dögunum og spurði hana aðeins út í síðasta tímabil og hvernig henni hafi þótt fyrsta árið á mótaröðinni.

„Þetta er búið að vera mjög skrýtið ár. Ég byrjaði árið að ná aðalmarkmiðinu mínu með því að enda meðal 25 efstu í lokaúrtökumóti fyrir Evrópumótaröð kvenna sem gaf mér fullan keppnisrétt á mótaröðinni 2020. Ég náði að spila í 3 mótum áður enn Covid skall á og eftir það hef ég nýtt mér þau tækifæri sem hafa gefist og verið klár þegar mót hafa verið sett á með stuttum fyrirvara. Ég spilaði í fáum mótum á árinu enn vonandi fæ ég tækifæri að checka fleiri markmið af listanum seinna á þessu ári þegar við getum byrjað að spila aftur.“

Mikið hefur verið rætt um ástandið í heiminum undanfarnar vikur og þrátt fyrir að mörg lönd séu byrjuð að bólusetja er ástandið að versna mikið.  LET til að mynda enn ekki gefið út mótaskrá og er mikil óvissa hvenær mótaröðin fari af stað með nýtt tímabil.

„LET hefur ekki enn formlega gefið út mótaskrá fyrir næsta tímabil. Enn já það er búið að aflýsa nokkrum mótum núna í byrjun árs. Við áttum að vera að byrja um miðjan febrúar enn núna er allt komið í biðstöðu þannig eins og er þá ætti fyrsta mót hjá okkur að vera í byrjun maí. “

Íslenskir atvinnukylfingar eyða oft töluverðum tíma erlendis á veturnar og vorin til að undirbúa sig fyrir komandi keppnistímabil. Guðrún Brá hefur aðeins ferðast til þess að fara í mót og segir hún að óvissan sé enn mikil og því erfitt að stefna eitthvað út til þess að æfa. Næstu vikurnar muni hún eyða í hermunum hjá Keili og leggja mikið upp úr því að vera tilbúin líkamlega fyrir komandi tímabil.

„Það er ennþá mikil óvissa í öllu. Ég get í rauninni ekki planað neitt langt fram í tímann eins og er þannig ég ætla bara að sjá hvernig allt þróast. Ég geri ráð fyrir að næstu vikur og mánuðir verði ég bara að æfa hérna heima á Íslandi nema eitthvað breytist fljótlega. Ég æfi mig mest í herminum inni í Keili og legg einnig mikla áheyrslu á líkamsrækt. Þetta er mjög skrýtið ástand enn ég ætla að gera það besta úr þessu og vinna í hlutum sem ég hef ekki haft tíma til að vinna í á venjulegu keppnistímabili og koma enn sterkari til leiks þegar við byrjum aftur.“

Þó svo að óvissan sé enn mikil telur Guðrún að árið gæti orðið nokkuð „venjulegt“ en hún telji þó að það verði einhverjar reglur sem munu gildi í ár varðandi sóttvarnir sem gerðu á síðasta ári.

„Ég held klárlega að Covid muni hafa einhver áhrif sérstaklega núna í byrjun árs. Ég held líka að ákveðnar reglur muni fylgja okkur í einhvern tíma eins og með sóttvarnir og annað. Enn ég er bjartsýn um að við náum að spila þó nokkuð “venjulega” þegar líða fer á árið ef allt þróast í rétt átt.“