Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Guðrún Brá endaði í 39. sæti | Hennar besti árangur á Evrópumótaröðinni
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 19. nóvember 2020 kl. 15:32

Guðrún Brá endaði í 39. sæti | Hennar besti árangur á Evrópumótaröðinni

Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK lék hringina þrjá á Saudi Ladies Team International mótinu á þremur höggum yfir pari og endaði jöfn í 39. sæti af 111 keppendum. Um var að ræða annað mótið í röð í Sádi Arabíu á Evrópumótaröð kvenna en leikið var á Royal Greens vellinum.

Keppnisfyrirkomulagið var með óhefðbundnu sniði en þrír atvinnukylfingar og einn áhugakylfingur léku saman í liði. Tvö bestu nettó skorin töldu hjá hverju liði á hverri holu. Alls voru 36 lið í liðakeppninni en samhliða henni fór fram einstaklingskeppni hjá atvinnukylfingunum.

Guðrún Brá var í liðinu Team Lampert (Saudi Golf Fed3) og var hún þar með tveimur þýskum leikmönnum ásamt kylfingi frá Sádi Arabíu. Lið þeirra endaði í 22. sæti á 25 höggum undir pari, 15 höggum á eftir Team Pedersen en sú danska sigraði einnig í einstaklingskeppninni.

Guðrún Brá lék vel á fyrsta degi og kom inn á þremur höggum undir pari. Á öðrum degi átti hún svo sinn versta hring í mótinu þegar hún kom inn á 77 höggum eða fimm höggum yfir pari. Í dag lék hún á höggi yfir pari og fékk alls fjóra skolla og þrjá fugla á hringnum.

Samtals lék Guðrún því á 3 höggum yfir pari sem dugði henni í 39. sæti en það er hennar besti árangur á Evrópumótaröð kvenna frá upphafi. Fyrir mót vikunnar var hennar besti árangur 57. sæti á Tipsport Czech Ladies Open fyrr á árinu.


Skorkort Guðrúnar í mótinu.

Hér er hægt að sjá úrslitin í einstaklingskeppninni.

Hér er hægt að sjá úrslitin í liðakeppninni.